Tvær önfirskar konur kjósa í hreppsnefnd 1874

Við hreppsnefndarkosningar í Mosvallahreppi í Önundarfirði þann 10. ágúst 1874 greiddu tvær konur atkvæði þegar þar var kosið í hreppsnefnd í fyrsta sinn skv. tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi frá 1872. Þetta voru þær Ingibjörg Pálsdóttir á Kirkjubóli í Bjarnardal (f. 1831) og Steinunn Jónsdóttir á Hesti (f. 1822, d. 1878), báðar búandi ekkjur. Á þessum tíma voru allar kosningar opinberar og skráð í kjörbók hvernig hver maður kaus.

Árið 1882 fengu konur á Íslandi kosningarétt í fyrsta sinn en sá réttur var mjög takmarkaður eða eins og segir í lögunum: „Ekkjur og aðrar ógiftar konur, sem standa fyrir búi eða á einhvern hátt eiga með sig sjálfar, skulu hafa kosningarrétt, þegar kjósa á í hreppsnefnd, sýslunefnd, bæjarstjórn og á safnaðarfundum, ef þær eru 25 ára og að öðru leyti fullnægja öllum þeim skilyrðum, sem lög ákveða fyrir þessum réttindum.“ Kjörgengi öðluðust þessar konur hins vegar ekki fyrr en 1902 og giftar konur fengu ekki kosningarétt til sveitarstjórnarkosninga fyrr en 1907.

Svo virðist sem misskilningur hafi verið ástæða þess að þær Ingibjörg og Steinunn fengu að kjósa áður en íslenskar konur fengu kosningarétt. Í tilskipuninni um sveitarstjórn á Íslandi frá 1872 sagði svo í 3. grein: „Kosningarrétt og kjörgengi til hreppsnefndar á hver búandi maður í hreppnum, sem hefur óflekkað mannorð, er 25 ára að aldri og er ekki öðrum háður sem hjú, ef hann síðasta árið hefur haft fast aðsetur í hreppnum og goldið til hans þarfa, stendur ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk og er fjár síns ráðandi.“ Steinunn og Ingibjörg hafa uppfyllt öll þessi skilyrði og kjörstjórnarmennirnir í Mosvallahreppi hafa líklega skilið tilskipunina þannig að orðin „hver búandi maður“ ættu jafnt við kvenmenn sem karlmenn, enda Ingibjörg og Steinunn fullgildir búendur í sinni sveit. Hitt er svo annað mál að þeir sem tilskipunina sömdu, eða þýddu úr dönsku, ætluðust ekki til þess skilnings þótt hann sé í samræmi við íslenskt mál og notkun þess allt frá fornöld.

Heimild: Ólafur Þ. Kristjánsson: „Tvær konur kjósa í hreppsnefnd 1874.“ Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1979, bls. 149–152.

1797/399: Mosvallahreppur. Kosningabók 1874–1904. Bréfabók 1887-1903, skrár og bréf 1903–1907.