Apríl 2016

Skíðakonur á fyrstu skíðaviku Ísfirðinga árið 1935

Myndina af þessum glaðlegu skíðakonum tók Gunnar Guðmundsson (1913–1959), kenndur við Björnsbúð á Ísafirði. Verslunin var stofnsett árið 1904 af Birni Guðmundssyni, gullsmið á Ísafirði, og ráku afkomendur hans verslunina til ársins 1997 þegar henni var lokað. Gunnar vann við verslun föður síns, Guðmundar Björnssonar, frá því hann var barn að aldri og var í mörg ár verzlunarstjóri hennar eða þar til fyrri hluta árs 1958 að hann lét af störfum. Gunnar eignaðist snemma myndavél og var duglegur að taka myndir í sínu nærumhverfi. Er filmusafn hans varðveitt á Ljósmyndasafninu Ísafirði.

Konurnar fimm voru þátttakendur á fyrstu skíðavikunni sem haldin var á Ísafirði árið 1935 og hófst að morgni skírdags, þann 18. apríl. Hátt í 80 þátttakendur söfnuðust saman í samkomuhúsi bæjarins þar sem þeim var skipt í fimm flokka og voru flokksstjórar þeir Ólafur Guðmundsson, formaður Skíðafélags Ísafjarðar, Helgi Guðmundsson bakarameistari, Ludvig Guðmundsson skólastjóri, Ágúst Leós verslunarmaður og Halldór Magnússon prentari. Á hádegi var lagt af stað í vörubílum inn að Seljalandi og þaðan gengið upp Múlann og að Skíðheimum. Veður var eins og best var á kosið, sól og blíða, og dreifðist skíðafólkið upp um „brekkur og bala, hæðir og hóla, fell og fjöll. Nógu var úr að velja: Gullhóll, Skarðsengi, Gyltuskarð, Sandfell, Mið-fell, Kistufell. Alstaðar tók við hæð af hæð og fell að felli. Og lungun þöndust, brjóstið hækkaði og stækkaði, hversdagslega döpur augu drukku i sig sól og snjó, endurspegluðu hvort tveggja og urðu glampandi fögur. Leiðinlegir menn urðu allt í einu skemtilegir og allir urðu vinir.“ Kaffi var drukkið um miðjan dag í Skíðheimum uppi á Seljalandsdal og í ValhöII niðri í Tungudal en síðan skíðað áfram fram eftir degi og haldið heimleiðis um kl. 18. Næstu dagar fóru fram með svipuðum hætti og lék veður við þátttakendur. Á laugardeginum var  haldin kvöldvaka í Birkihlíð, nemendaskála Gagnfræðaskólans i Tungudal. „Verður þeim skemtunum ekki frekar lýst hér, en þær voru eins skemtilegar eins og slíkar skemtanir heilbrigðrar, hraustrar æsku hljóta að verða.“ Þegar leið á vikuna fór bæði veður og skíðafæri smáversnandi og á annan í páskum var kominn norðangjóstur og versta færi. Skíðavikunni lauk með kveðjusamkomu í Templarahúsinu á ísafirði og var mál manna að hún hefði verið sannkölluð sæluvika fyrir alla þátttakendur.

Heimild: Gunnar Andrew: „Sól og snjór í „Rauða bænum“. Skíðavikan á Ísafirði 18. – 21. Apríl.“ Sunnudagsblað Alþýðublaðsins 5. maí 1935, bls. 1-3.