Júlí 2015

KÍKT Í BLÖÐIN Á SÓLRÍKUM SUMARDEGI Í TUNGUSKÓGI

Jónas Tómasson, bóksali og tónskáld, nýtur veðurblíðunnar og les blöðin ásamt tengdaföður sínum, Ingvari Vigfússyni blikksmið. Myndina tók Vigfús Ingvarsson (1892–1968) í lok fjórða áratugar 20. aldar - á upphafsárum sumarhúsabyggðar í Tunguskógi við Skutulsfjörð. Fyrstur til að reisa þar sumarhús var danski ljósmyndarinn og fjöllistamaðurinn Martinus Simson sem reisti hús sitt Kornustaði árið 1927 og ræktaði þar mikinn trjá- og blómagarð. Sumarhúsabyggðin var þó fyrst til þegar Ísafjarðarkaupstaður eignaðist landið árið 1936 og skipulagði þar sumarhúsabyggð. Sumarið 1936 voru 12 bústaðir í byggingu svo augljóslega var mikill áhugi fyrir því að koma sér upp sælureit í Tungudal. Einn þeirra sem reisti sér hús var Jónas Tómasson og má sjá hús hans í baksýn, til vinstri.

Jónas Tómasson fæddist árið 1881 í Fnjóskadal í Þingeyjarsýslu. Árið 1903 flutti hann til Ísafjarðar og bjó þar alla tíð síðan. Í fyrstu stundaði Jónas ýmis verslunar- og skrifstofustörf en haustið 1909 hélt hann til Reykjavíkur og var þar um veturinn við nám í orgelleik og söngfræði hjá Sigfúsi Einarssyni, tónskáldi. Einnig sótti hann tíma í Kennaraskólanum og tók söngkennarapróf þaðan um vorið. Eftir að Jónas kom aftur heim til Ísafjarðar gerðist hann organisti við Ísafjarðarkirkju og gegndi því starfi í rúm 50 ár. Einnig kenndi hann söng við Barnaskólann og stofnaði sinn eigin skóla, Tónlistarskóla Ísafjarðar (hinn eldri). Var hann starfræktur til 1918 þegar hann var lagður niður vegna kreppuástands og eldiviðarskorts. Árið 1920 hóf Jónas rekstur bókabúðar sinnar sem varð hans aðalstarf og lifibrauð út starfsævina. Aukastörfin voru eftir sem áður margskonar á vettvangi tónlistar og menningarmála, m.a var hann stjórnandi ýmissa kóra um árabil auk þess að vera afkastamikið tónskáld en eftir Jónas liggja t.d. mörg þekkt sálmalög. Árið 1921 kvæntist Jónas ísfirskri stúlku, Önnu Ingvarsdóttur (1900-1943), og starfaði hún ötullega með honum að kirkju- og söngmálum alla tíð meðan heilsa og líf entist. Þau eignuðust þrjá syni: Tómas Árna, Ingvar og Gunnlaug. Í október 1960 var Jónas af bæjarstjórn Ísafjarðar tilnefndur fyrsti heiðursborgari Ísafjarðarkaupstaðar. Hann lést 9. september 1967.

Ingvar Vigfússon blikksmiður fæddist 6. janúar 1868 í Nýjabæ í Krísuvík. Hann stundaði ýmsa landvinnu, var m.a. í kaupavinnu norður í landi, við hvalskurð i hvalveiðastöðinni í Framnesi i Dýrafirði og við fiskvinnu á Ísafirði og víðar. Ingvar var hagur vel og þegar fram liðu stundir fór hann að leggja sig eftir blikksmíði. Árið 1897 flutti hann með fjölskyldu sína til Ísafjarðar þar sem hann bjó síðan. Á Ísafirði starfaði Ingvar við blikksmíði og pípulagningar og lagði m.a. allar leiðslur vatnsveitu Ísafjarðar, sem var hin fyrsta á landinu. Hafði hann síðan í mörg ár eftirlit með vatnsveitunni. Ingvar sat lengi í sóknarnefnd og var meðhjálpari um árabil. Hann var einnig ötull liðsmaður bindindishreyfingarinnar alla tíð. Kona Ingvars var Sigríður Árnadóttir (1858–1936). Þau áttu fjögur börn: Arnfríði, Sigríði, Vigfús (sem tók myndina) og yngst var Anna, kona Jónasar. Ingvar lést árið 1941.

Heimildir: Vesturland 2. ágúst 1941, s. 121; Skutull 9. ágúst 1941, s. 115 og 116; Morgunblaðið 24. september 1967, s. 12 og 22.