Júní 2014

NÝTÍSKULEG SKURÐSTOFA ÁRIÐ 1925

Á myndinni má sjá skurðstofuna á sjúkrahúsinu við Eyrartún á Ísafirði árið 1925, eða um það leyti sem húsið var vígt. Vilmundur Jónsson læknir tók myndina en hann var jafnframt helsti hvatamaður að byggingu sjúkrahússins sem leysti af hólmi eldra sjúkrahús við Mánagötu 5. Var það reist árið 1896 og tekið í notkun 5. apríl árið eftir. Forvígismaður þeirrar framkvæmdar var Þorvaldur Jónsson héraðslæknir en hann þjónaði Ísfirðingum dyggilega í um 37 ár. Þorvaldur fór sjálfur til Danmerkur og keypti allan hús- og tækjabúnað en sjúkrahúsið þótti með fullkomnustu húsum sinnar tegundar á landinu á sínum tíma.

Á þriðja áratugnum ákváðu Ísfirðingar að reisa nýtt sjúkrahús enda húsið í Mánagötunni þá löngu orðið of lítið. Vilmundur Jónsson læknir hreyfði því máli strax eftir að hann varð héraðslæknir árið 1917 og tveimur árum seinna hóf bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar undirbúning að byggingu sjúkrahússins. Var húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, fenginn til að teikna húsið. Við staðarvalið var haft í huga að sjúkrahúsið þurfti að standa á rólegum og kyrrlátum stað, utan mesta annasvæðisins í bænum, en jafnframt varð að gæta þess að aðgangur að því væri greiður. Þegar þetta tvennt var haft í huga  og einnig að byggingarlóðir lágu ekki á lausu á eyrinni, kom varla annar staður til greina en Eyrartún.

Hið nýja sjúkrahús var vígt þann 17. júní 1925. Það þótti bera vitni um stórhug og jafnvel dirfsku að reisa svo stórt sjúkrahús á þessum tíma en eftir því sem tímar liðu kom í ljós að byggt var af framsýni og raunsæi. Sjúkrahúsið þjónaði Ísfirðingum, Vestfirðingum og stórum hópi íslenskra og erlendra sjómanna allt fram til ársins 1989. Strax á sjöunda áratugnum var engu að síður bent á að sjúkrahúsið væri of lítið og stæðist ekki kröfur samtímans, enda þá liðin nær hálf öld frá byggingu þess. Árið 1987 samþykkti bæjarstjórn að húsið yrði í framtíðinni nýtt undir starfsemi bóka-, skjala-, ljósmynda- og og listasafns. Miklar endurbætur voru gerðar á húsinu en innra skipulag er að mestu óbreytt. Þann 17. júní 2003 var húsið vígt sem safnahús.