Mars 2015

FYRST KVENNA TIL AÐ NÝTA KOSNINGARÉTT SINN

Andrea Friðrika Guðmundsdóttir (1845–1911), saumakona á Ísafirði, var fyrst íslenskra kvenna til að nýta kosningarétt sinn þegar hún mætti á kjörstað á Ísafirði 2. janúar 1884 og kaus í bæjarstjórnarkosningum. Tveimur árum áður höfðu konur á Íslandi fengið kosningarétt í fyrsta sinn en sá réttur var mjög takmarkaður eða eins og segir í lögunum: „Ekkjur og aðrar ógiftar konur, sem standa fyrir búi eða á einhvern hátt eiga með sig sjálfar, skulu hafa kosningarrétt, þegar kjósa á í hreppsnefnd, sýslunefnd, bæjarstjórn og á safnaðarfundum, ef þær eru 25 ára og að öðru leyti fullnægja öllum þeim skilyrðum, sem lög ákveða fyrir þessum réttindum.“ Kjörgengi öðluðust þessar konur hins vegar ekki fyrr en 1902 og giftar konur fengu ekki kosningarétt til sveitarstjórnarkosninga fyrr en 1907. 

Reyndar höfðu a.m.k. þrjár konur kosið til sveitarstjórnar áður en þessi lög voru sett. Á Akureyri kaus Vilhelmína Lever til bæjarstjórnar 31. mars 1863 og aftur 3. janúar 1866. Vestur í Önundarfirði gerðist það við hreppsnefndarkosningar í Mosvallahreppi 10. ágúst 1874 að tvær konur, þær Ingibjörg Pálsdóttir á Kirkjubóli í Bjarnardal og Steinunn Jónsdóttir á Hesti, greiddu atkvæði þegar þar var kosið í hreppsnefnd í fyrsta sinn skv. tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi frá 1872.

Á myndinni má sjá Andreu Guðmundsdóttur saumakonu klædda skautbúningi. Með henni eru stúlkur sem lærðu hjá henni fatasaum og fínni hannyrðir á Ísafirði árið 1902. Myndin er úr safni Björns Pálssonar, ljósmyndara á Ísafirði.