Október 2015

STJÓRNMÁLAFUNDUR Í HAFNARSTRÆTI VORIÐ 1930

Á fundi bygginganefndar Ísafjarðarkaupstaðar 4. febrúar 1930 var samþykkt erindi frá Kaupfélagi Ísfirðinga um byggingalóð á horni Hafnarstrætis og Austurvegar. Framkvæmdir hófust um vorið og var byrjað á að flytja salt- og fiskþurrkunarhús sem stóð á lóðinni. Það hafði verið í eigu verslunarinnar í Hæstakaupstað en hafnarsjóður keypti húsið og lét flytja það fram á uppfyllingu hjá kolaporti J. S. Edwalds, þ.e. á bak við húsið að Hafnarstræti 5. Þessi skemmtilega mynd (ljósmyndari er óþekktur) er tekin daginn sem húsið var flutt í lok maí 1930. Á sama tíma fór fram stjórnmálafundur í Hafnarstræti vegna komandi Alþingiskosninga. Í blaðinu Vesturlandi birtist frétt um þennan atburð 2. júní s.á. þar sem segir:

Fundur á Ísafirði. Fundur sá, sem efstu menn landskjörslistanna héldu hér á Ísafirði, var ekki svo fjölsóttur, sem ætla mátti. Bar margt til þess, en þó fyrst það, að á virkum degi var, og veður hagstætt til sjósóknar og fiskþurkunar. Í öðru lagi húsnæðisleysi, og var fyrst í ráði að halda fundinn í húsi templara, sem rúmar fáa eina af þeim, er slíka fundi vilja sækja. En frá því var horfið, og fundurinn haldinn úti. Töluðu ræðumenn af veggsvölum húsanna nr. 2 og 4 í Hafnarstræti, en áheyrendur höfðu skjól og gott næði þar framundan, því gatan var lokuð litlu ofar af húsi, sem verið var að flytja yfir götuna.