Skjölin sem hér eru birt koma frá Birni Guðmundssyni sem lengi var kaupmaður á Ísafirði og þekktur borgari þar í bæ. Björn var fæddur 25. apríl 1850 á Broddanesi í Broddaneshreppi og voru foreldrar hans Guðmundur Sakaríasson og Guðný Tómasdóttir. Björn ólst upp hjá foreldrum sínum sem bjuggu á ýmsum bæjum í Dala- og Strandasýslum en veturinn 1868 fór hann vestur að Ísafjarðardjúpi til gull- og silfursmíðanáms hjá Sumarliða Sumarliðasyni í Æðey. Árið 1881 flutti hann til Ísafjarðar og settist þar að sem gull- og silfursmiður. Fékk hann síðar verslunarleyfi og opnaði verslun undir heitinu Björnsbúð sem starfaði allt til árins 1997. Árið 1884 gekk Björn að eiga Elísabetu Jónsdóttur og eignuðust þau sjö börn, sex syni og eina dóttur. Björn lést 1. febrúar 1932.
Brot úr bréfi Þóru Guðmundsdóttur til Björns bróður hennar. Bréfið er stílað í Þorpum, án dagsetningar.
„Frjettalítill og ómerkilegur verður þessi miði nema jeg get sagt þjer að jeg veyt ekki annað enn við siglum í vor ef við lifum og eyngin forföll koma uppá og gjörir það neyðin eyn og samt er hann [...] til að reyna ð áforma þetta í guðs trausti af því svona baginda lega lítur út árlega því hann hugsar líka að ef hann fer ekki í vor þá getur hann ekki heldur komist seynna ef hann misti þá skepnurnar eða annað eins harðinda ár kjæmi upp á eyns og árið sem leyð og átti jeg að seyga þjer það að mjer þikir heldur sárt að vita þig verða eptir þegar við ætlum að halda hóp og filgast svo það sama gángi yfir okkur hvort það verður heldur blítt eða strítt en jeg veyt að það er ekki til neyns að nefna það því þú er orðin svo fastur að þú getur ekki farið og svo kjanski þig lángi ekki heldur en ef jeg vissi að það væri til eynhvörs að nefna það þá skildi jeg ekki spara það nú held jeg mjer best að hætta við þetta fjas sem ekki hefur neytt upp á sig.“ (Skjs. Ís. 3117/675)
Hluti bréfs Guðnýjar Tómasdóttur til Björns, sonar hennar á Ísafirði. Bréfið er líklega skrifað vorið 1884 í Garðar, North-Dakota.
„Hjeðann er það helst að frjetta að tíðin hefir verið yndælis góð í vetur, snjór kom ekki fyrr enn undir jól og fór aptur á góu. Margir eru nú búnir að sá hveiti sínu og jörð töluvert farin að grænka og hveiti líka farið að koma upp sem first var sáð. Í firra sumar urðu hjer stórskemdir á hveiti svo fjöldinn af bændum höfðu ekki nema frosið og ýmislega stórskemt hveiti er ekki gekk á markaðina. Þó urðu ekki mjög margir Íslendingar fyrir því og held jeg skógarbelti þau er víða liggja um byggðina hafi nokkuð skýlt fyrir frostinu. Óskemt hveiti komst hjer yfir dollar í haust enn nú er það komið ofaní 86 cent. Hveitimjel er því nýt nú á hjerumbil 3½ dollar sekkurinn (100 pund). Íslendingar stunda hjer griparægt meira enn innlendir líka hafa þeir nokkuð af kindum svínum. Margir eru töluvert skuldugir enn því miklir peningar liggja í því er hveitiræktin útheimtir enn hún er líka arðsöm þegar hún heppnast. Kaupgjald er hjer úr því heiskapur byrjar 1 dollar á dag enn upp að 2ur um harðvest og þreskingu. Framan af sumri er kaup hjer minna. Hesta par er hjer á 3 hundruð uppað 5hr. Ugxa par er hjer á 1 hr uppað 1½. Kýr eru á 25 dollara til 30. Heyskapur er hjer fljótteknari enn heima, fyrir 3 kýr má slá hjer á dag með maskínu. Mikill er hjer munur á tíð eða heima á fróni, hjer koma sjaldan þokur. Rigningaskúrir eru hjer opt sverar með þrumum enn optast er hreinviðri. Frost eru hjer hörð á vetrum og hitar opt miklir [á] sumrum. Landið er hjer yfir höfuð flatlent nema hálsar þeir sem liggja hjer fast vestan við Ísl. byggðina og eru kölluð Pemínafjöll. Liggur járnbraut eptir þeim fyrir ofan brúnirnar og önnur hjer nokkuð austar á sljettunum. Hafa Ísl. markað sinn við þær báðar, er rennisljettur vegur til þeirrar austari. Kirkjur eru að rísa hjer upp í byggðinni, eru komnar 3. 1 prestur þjónar að þeim, líkar mönnum hann vel.“ (Skjs. Ís. 3117/675).