Desember 2014

 

Fæðing Jesú

Kristján Helgi Magnússon

Kristján Helgi Magnússon var fæddur á Ísafirði árið 1903, sonur hjónanna Guðrúnar Ísaksdóttur og Magnúsar Örnólfssonar skipstjóra; þau létust bæði er Kristján var á unga aldri. Á unglingsárum naut hann tilsagnar í teikningu og útskurði hjá Guðmundi frá Mosdal, þekktum hagleiksmanni á Ísafirði. Sautján ára hleypti Kristján heimdraganum, hélt til Boston í Bandaríkjunum, en þar átti hann skyldmenni. Kristján hóf fljótlega listnám við Massachusetts School of Art og útskrifaðist að fimm árum liðnum við góðan orðstír.

Snemma árs 1929 heldur Kristján til Íslands og giftist árið eftir lífsförunaut sínum, Klöru Helgadóttur. Kristján ferðaðist víða um land og málaði af kappi. Hann var einnig ötull við að sýna, frá vori og fram á haust 1930 hélt hann tvær einkasýningar í Reykjavík, eina á Ísafirði og eina í Lundúnum og átti auk þess stóran hlut í Landakotssýningunni í Reykjavík.

Þegar hann lést árið 1937, aðeins 34 ára, var hann nýkominn úr málunarferð sem hann hafði farið á hestbaki um uppsveitir Borgarfjarðar. Veiktist hann skyndilega og lést. Talið er að garnaflækja hafi orðið honum að banameini. 

Þegar frá eru taldar tvær minningarsýningar, síðast í Listamannaskálanum í Reykjavík 1953, ríkti grafarþögn um Kristján H. Magnússon áratugum saman.  Það var ekki fyrr en Listasafn Ísafjarðar hélt yfirlitssýningu á verkum hans árið 1986 að farið var að skoða stöðu hans í íslenskri myndlist á ný. 

(Tekið úr grein Jóns Sigurpálssonar og Rúnars Helga Vignissonar í Lesbókinni 1994)