„Hotel Nordpolen“ á Ísafirði þann 11. ágúst 1907. Húsið var skreytt í tilefni af komu Friðriks konungs VIII til Ísafjarðar en bærinn var allur flöggum skrýddur „og fáein hús prýdd með lyngsveigum og stögum með fánum“ segir í frétt af þessum viðburði í blaðinu Vestra. Sölvi Thorsteinsson, gestgjafi og lóðs, hóf byggingu hússins að Pólgötu 4 árið 1879 og var það fullbúið fjórum árum seinna. Vorið 1892 fékk hann leyfi til að hefja þar veitingarekstur og gekk húsið eftir það undir nafninu „Hotel Nordpolen“. Dregur Pólgatan nafn sitt af húsinu. Á myndinni má sjá Sölva ásamt fjölskyldu sinni og hjúum en þetta var merkisdagur í lífi hans þar sem konungur sæmdi hann Dannebrogsorðunni. Sölvi er til vinstri í annarri röð, við hlið hans er Sigríður Bjarnadóttir eiginkona hans og til hægri er Andrea S. Á. Magnúsdóttir sem lengi átti heimili hjá þeim hjónum. Í fremstu röð eru börn Sölva og Sigríðar: Jakob, María og Þorsteinn. Konurnar tvær í efstu röðinni eru óþekktar en líklega vinnukonur á heimilinu.
Ljósm. Björn Pálsson