Hér áður fyrr þótti mörgum Ísfirðingum jólin fyrst vera að koma þegar jólasveinninn við Fjarðarstræti 29 var kominn á sinn stað, ríðandi á fáki sínum. Þarna bjuggu í rúma hálfa öld hjónin Jón Jónsson klæðskeri (1890–1979) og Karlinna Jóhannesdóttir (1896–1979). Var hefðin fyrir jólasveininum því harla löng og margar kynslóðir Ísfirðinga sem ólust upp við þessa skemmtilegu jólaskreytingu, m.a. Bjarni Gestsson sem tók þessa mynd í kringum 1970 en á henni má sjá Jón klæðskera með jólasveininum, harla þungbúnum á svip.