Jólaboð heima hjá Gunnari Juul apótekara og Thyru, eiginkonu hans, árið 1926. Bjuggu þau þá í Apótekinu sem var við Pólgötu 1 á Ísafirði þar sem húsið stóð áður en það var flutt á næstu lóð, Hafnarstræti 18. Gestirnir eru taldir frá vinstri, efsta röð: Sigurður Sigurgeirsson sóknarprestur, Jón Auðun bankastjóri, óþekktur maður, Gunnar Juul apótekari, Eiríkur Kjerúlf læknir og Sigfús Daníelsson verslunarstjóri. Miðjuröð frá vinstri: Guðrún Pétursdóttir (eiginkona séra Sigurgeirs), Sigríður Kjerúlf, Anna Daníelsson og Hild M. Nielsen (systir Thyru Juul). Neðsta röð frá vinstri: Margrét Jónsdóttir Auðuns, Thyra Juul, óþekkt kona, Sigríður Auðuns og óþekkt stúlka.
Gunnar Juul lyfsali var fæddur i Saxköbing á Lolland i Danmörku 16. marz 1894. Hann lauk fullnaðarprófi í lyfjafræði árið 1916 og árið 1920 keypti hann Lyfjabúð Ísafjarðar af þáverandi eiganda hennar, Gustav Rasmussen. Sama ár giftist hann Thyru Marie Nielsen f. 1897, sem einnig var lyfjafræðingur, og fluttu hin nýgiftu hjón þegar til Ísafjarðar. Eignuðust þau 3 börn: Birgit Aase, Bodil Kirsten og Mogens Olaf. Gunnar varð bráðkvaddur á heimili sínu 27. ágúst 1943 og rak Thyra apótekið áfram um eins árs skeið eftir andlát manns síns. Þá tók Hans Albert Svane lyfsali við rekstrinum í október 1944 en Thyra flutti til Reykjavíkur þar sem hún lést 22. apríl 1988.