Febrúar 2018

Ljósmyndasafn Ólafs K. Magnússonar / Morgunblaðsins. Ól.K.M. mynd nr. 068 264 2-2 

UMSÁTURSÁSTAND VIÐ SJÚKRAHÚSIÐ Á ÍSAFIRÐI

Fimmtíu ár eru nú liðin frá sjóslysunum miklu í Ísafjarðardjúpi í byrjun febrúar 1968. Fórst þá vélbáturinn Heiðrún II frá Bolungarvík með allri áhöfn, breski togarinn Ross Cleveland með allri áhöfn nema einum manni og annar breskur togari, Notts County, strandaði við Snæfjallaströnd. Áhöfninni var bjargað af varðskipinu Óðni en einn maður dó af vosbúð.

Vélbáturinn Heiðrún II, ÍS 12, 153 tonna vélbátur, lá við Brjótinn í Bolungarvík þegar óveðrið færðist allt í aukana. Sunnudaginn 4. febrúar var báturinn að slitna frá og stukku þá sex menn um borð og hugðust sigla bátnum til Ísafjarðar í var. Þeir náðu ekki landi eftir það. Sex menn fórust með Heiðrúnu II, Rögnvaldur Sigurjónsson, 52 ára vélstjóri sem var skipstjóri í þessari ferð, og tveir synir hans, Ragnar, 18 ára, og Sigurjón, 17 ára, sem báðir voru hásetar, Páll Ísleifur Vilhjálmsson, 31 árs vélstjóri á vs. Guðmundi Péturs, Kjartan Halldór Kjartansson, 23 ára háseti á vb. Einari, og Sigurður Sigurðsson háseti, 17 ára.

Breski togarinn Ross Cleveland sökk í ofsaveðri og ísingu út af Skutulsfirði í Ísafjarðardjúpi þann 5. febrúar. Einn skipverja, Harry Eddon, bjargaðist við illan leik en 19 skipsfélagar hans fórust. Kveðjuorð skipstjórans á Ross Cleveland í talstöðinni; „Við erum að fara. Skilið ástarkveðju minni og skipsmanna til eiginkvenna okkar og fjölskyldna,“ endurómuðu um England. Fyrst var talið að allir skipsverjar á Ross Cleveland hefðu farist en síðan kom í ljós að einn maður hafði bjargast, fyrsti stýrimaðurinn Harry Eddom. Björgun hans varð einhver mesti fjölmiðlaviðburður sem þá hafði átt sér stað í landinu og varð fréttaefni um allan heim. Til landsins kom fjöldi breskra fjölmiðlamanna og æsiblaðið Sun borgaði far eiginkonu Eddoms til landsins og keypti einkarétt á frásögn stýrimannsins. Hann hafði komist í björgunarbát ásamt tveimur öðrum skipsverjum þegar togaranum hvoldi vegna mikillar ísingar. Rak bátinn á land fyrir botni Seyðisfjarðar en hinir skipverjarnir voru þá látnir. Stýrimaðurinn braust að húsi í talsverðri fjarlægð en það reyndist vera mannlaus sumarbústaður. Hafði hann ekki þrek til að brjóta upp húsið en tókst að hjara til morguns í skjóli við það. Næsta morgun varð drengur frá Kleifum var við hann og aðstoðaði heim að bæ en hann var svo fluttur til Ísafjarðar þar sem hann var lagður inn á sjúkrahúsið til aðhlynningar. Atgangur hinna erlendu fjölmiðlamanna var slíkur að sjúkrahúsið á Ísafirði mátti kallast í umsátri og lenti yfirlæknirinn í handalögmálum við bresku fréttamennina. Fréttablaðið Tíminn segir svo frá þessum atburðum: 

Spítalinn á Ísafirði hefur verið í umsátursástandi síðan kl. 6 í morgun. Þá byrjuðu brezkir blaðamenn og ljósmyndarar að þyrpast að dyrunum og vildu komast inn. Átti starfsfólk sjúkrahússins fullt í fangi með að verjast innrásarhernum og varð sjúkrahússlæknirinn, Úlfur Gunnarsson, að standa í handalögmáli við Bretana, sem börðust um á hæl og hnakka við að komast inn í bygginguna. Sagði læknirinn að hann hafi orðið að sparka í kviðinn á einum þeirra og berja frá sér. Hafi sér aldrei dottið í hug að hann ætti eftir að þurfa að viðhafa slíkt við nokkurn mann. Ekki þarf að orðlengja, að blaðamennirnir ætluðu að vera viðstaddir þegar Rita Eddom hitti mann sinn, Harry Eddom, sem liggur á spítalanum eftir mikla hrakninga, sem vakið hafa heims athygli. Umsátrið hófst raunar fyrir nokkrum dögum í Hull. Þar hafði blaðið Sun gert samning við Ritu Eddom um að fá að sitja eitt að frásögn og myndatökum um líðan frúarinnar og endurfundum hjónanna, og greitt drjúgan skilding fyrir. Eftir það talaði hún ekki við aðra blaðmenn en frá Sun og varaðist að láta aðra ljósmyndara en þá sem starfa við það blað taka af sér myndir. Eins og að líkum lætur vildu aðrir blaðamenn ekki una við slíkt og hafa síðan beitt öllum ráðum til að komast að frúnni og fá hana til að svara spurningum. (Tíminn 9. febrúar 1968, 3 og 14).