Bátarnir Vébjörn ÍS 14, Ísbjörn ÍS 15, Auðbjörn ÍS 17 og línuveiðarinn Ölver ÍS 1 á Pollinum á Ísafirði. Hann var 95 tonn, smíðaður árið 1902 í Florvaag í Noregi. Eigendur voru Bjarni J. Fannberg og fleiri. Skipið var selt til Hafnarfjarðar haustið 1933 og hét eftir það Bjarnarey GK 12. Birnirnir svokölluðu voru gerðir út af Samvinnufélagi Ísfirðinga sem var stofnað 22. desember 1927 í kjölfarið á hruni ísfirskrar útgerðar þar sem stærstu útgerðirnar hættu starfsemi og skipin voru seld í burtu. Að stofnun félagsins stóðu forystumenn Alþýðuflokksins á Ísafirði og skipstjórar, sjómenn og verkafólk í bænum. Félagið lét smíða sjö vélbáta, 40–45 lestir að stærð, í Noregi og Svíþjóð á árunum 1928–1929. Báru þeir allir –bjarnar nöfn. Fyrst í stað var uppbyggingu félagsins þannig háttað að um bátana voru mynduð sérstök eigendafélög með aðild skipstjóra, annarra sjómanna og fleiri félagsmanna í Samvinnufélaginu. Þessi skipan mála stóð aðeins skamma hríð þar sem áhættan við útgerð bátanna var meiri en í rekstri félagsins í heild. Samvinnufélagið keypti því bátana árið 1930. Verðfall á saltfiski og sölutregða hjó mjög nærri félaginu á árunum 1931–1935 en eftir það gekk reksturinn bærilega. Aukin eftirspurn og hækkun fiskverðs í heimsstyrjöldinni síðari skilaði góðri afkomu og rekstur gekk vel en eftir stríð varð ljóst að bátarnir hentuðu ekki lengur til hefðbundinna veiða og í byrjun sjötta áratugarins lagði Samvinnufélag Ísfirðinga upp laupana.
Myndina tók Haraldur Ólafsson, líklega veturinn 1931–1932.