Janúar 2015

KAUPFÉLAGSHÚSIÐ Á ÍSAFIRÐI

Á fundi bygginganefndar Ísafjarðarkaupstaðar 4. febrúar 1930 var lagt fram erindi frá Kaupfélagi Ísfirðinga um byggingalóð á horni Hafnarstrætis og Austurvegar. Umsóknin var samþykk og 20. maí s.á.  var uppdráttur að húsinu lagður fram og samþykktur. Framkvæmdir hófust þá þegar og í desember 1931 flutti Kaupfélagið í nýja húsið.

Hönnuður hússins var Sveinbjörn Jónsson byggingameistari (1896–1982), löngum kenndur við Ofnasmiðjuna. Hann var á þessum árum búsettur á Akureyri og þykir ferill hans sem byggingameistara hafa risið hvað hæst á því tímabili. Á seinni hluta þriðja áratugarins teiknaði Sveinbjörn, og byggði flestum tilfellum sjálfur, stórhýsi sem mest hafa haldið nafni hans á lofti, t.d. verslunarhús KEA í Hafnarstræti á Akureyri sem tekið var í notkun árið 1930. Sama ár var hann fenginn til að teikna verslunarhús fyrir Kaupfélag Ísfirðinga og lét sjálfur svo um mælt síðar, að hann væri einna stoltastur af þeirri byggingu.

Byggingameistarar hússins voru tveir, þeir Páll Kristjánsson og Jón H. Sigmundsson. Í æviágripi sínu segir Páll frá því að síðla árs 1930 hafi þeir Jón tekið að sér að byggja í ákvæðisvinnu (akkorði) „hús Matthíasar Sveinssonar kaupmanns [Silfurtorg 1] og verslunarhús Kaupfélags Ísfirðinga. Það fyrrnefnda fyrir 35.800 alklárað undir málningu, og það síðarnefnda fyrir 63.300 alklárað og málað utan, innrétting ekki með. Til þess að framkvæma þessi verk keyptum við hrærivél með öllu tilheyrandi og er það fyrsta hrærilvélin sem keypt hefur verið af ísfirskum  iðnaðarmönnum.“

Þegar húsið var tekið í notkun voru  tvær verslanir á neðstu hæðinni, önnur fyrir matvörur og nýlenduvörur en hin fyrir vefnaðarvöru og skófatnað. Á annarri hæð voru skrifstofu Kaupfélagsins sem einnig leigði þar út aðstöðu til ýmissa aðila . Á þriðju og efstu hæðinni voru íbúðir og þar bjó kaupfélagsstjórinn sjálfur, Ketill Guðmundsson. Fjögur önnur heimili voru skráð þar árið 1932 og voru það skólastjóri og kennarar barna- og gagnfræðaskólans sem bjuggu þar ásamt fjölskyldum sínum.