Miðvikudaginn 8. september árið 1920 voru um 200 manns samankomin á byggingastað við Bankagötu (Mánagötu) á Ísafirði þar sem við hátíðlega athöfn var lagður hyrningarsteinn að gistihúsi og sjómannahælis Hjálpræðishersins á Ísafirði. Ræður voru fluttar og meðlimir í hornaflokki bæjarins léku nokkur lög við þetta tækifæri. Þá var lesinn upp texti sá er lagður skyldi í hornsteininn en þar sagði meðal annars:
„SKILAGREIN UM BYGGINGU HJÁLPRÆÐISHERSINS Á ÍSAFIRÐI.
Bygging þessi er reist í þeim tilgangi, að hún verði athvarf sjómanna og annara ferðamanna, og nefnist því: SJÓMANNA- OG GESTAHEIMILI HJÁLPRÆÐISHERSINS Á ÍSAFIRÐI.
Ennfremur verður komið fyrir, á neðstu hæð hússins, bráðabirgðaheimili fyrir 15 gamalmenni, samkvæmt sérstökum samningi við bæjarstjórn kaupstaðarins. Stærð hússins er 16,45 m X 8,25 m., ásamt útbyggingu sem er 9,35 X 7 m. Húsið er bygt úr steinsteypu, tvílyft með porti og kjallara, nema útbyggingin verður aðeins ein hæð með kjallara. Hornsteinn byggingarinnar er lagður af Major S. Grauslund 8. dag septembermánaðar 1920. Uppdrætti og áætlanir hefir hr. byggingarmeistari Einar Erlendsson, Reykjavík, samið. Yfirsmiður byggingarinnar er hr. trésmíðameistari Jón Sigmundsson, Ísafirði. Sá sem byggir er: BYGGINGA OG VERSLUNAR H/F. HJÁLPRÆÐISHERSINS Í KAUPMANNAHÖFN. Í stjórn félags þessa eru nú sem stendur: W. Bramwell Booth, stjórnandi, umsjónarmaður. Kommandör J. A. H. Povlsen, stjórnandi, framkvæmdarstjóri. Meðstjórnendur: Óberst J. Nielsen, Major J. Jörgensen og O. Bandsberg.
Áætlað er, að byggingarkostnaðurinn verði um 125,000 krónur. Fjársöfnun til fyrirtækis þessa hóf Ensain O. Ólafsson vorið 1916 og eru til þessa dags komnar 33,000 krónur í byggingarsjóðinn, með frjálsum samskotum, tillögum sýslu- og sveitafélaga ásamt með tillagi kaupstaðarins. Af opinberu fé er stofnuninni trygður 3000 króna styrkur ár hvert, fyrstu 10 árin sem hún verður starfrækt. Hyrningarsteinninn er lagður, og byrjað á byggingu hússins, á níunda ríkisstjórnarári Hans Hátignar Kristjáns konungs X., sömuleiðis á níunda stjórnarári W. Bramwell Booth's, hershöfðingja og yfirleiðtoga Hjálpræðishersins um heim allan. - Deildarstjóri Hjálpræðishersins á Íslandi er Majór S. Grauslund. Flokkstjóri Hjálpræðishersins á Ísafirði er Ensain O. Ólafsson. Aðstoðarforingi á Ísafirði er Ensain A. Nílsson. Flokkurinn á Ísafirði var stofnaður 2. október 1896, og er hann annar flokkur Hjálpræðishersins á Íslandi. - Byggingu þessa reisum vér með þakklæti til Guðs fyrir handleiðslu hans á liðinni tíð, og með innilegri bæn til hans um það, að sjómenn og aðrir ferðamenn, er til bæjarins koma, megi ætíð finna þar gott athvarf og skjól. - Mætti stofnun þessi einnig verða til þess, að fegra æfikvöld gamalmenna þeirra, er hér verður búið heimili um nokkurt skeið.“
Eftir að lesinn hafði verið upp texti sá er varðveitast skyldi í hornsteininum lagði forstjóri Hjálpræðishersins hylkið í grunni byggingarinnar með eftirfarandi orðum:
„Með þeirri ósk og bæn, að sjálfur Guð dvelji hér í náð sinni, mitt á meðal vor, svo þetta hús verði heimili fyrir marga heimilislausa, legg ég hér í hornstein þessarar byggingar þetta hylki i nafni heilagrar þrenningar: Guðs föður, Sonar og Heilags Anda. Í hylkinu eru, ásamt með einu eintaki af blöðum vorum, Herópinu og Unga hermanninum, skjöl, sem munu einhverju sinni fræða komandi kynslóðir um þær ástæður, er urðu þess valdandi, að vér létum reisa þessa byggingu. Amen.“ Þegar búið var að ganga forsvaranlega frá hylkinu í hornsteininum, lék hornaflokkurinn „prýðisfallegt lag og hugðnæmt" og bæjarfógeti Magnús Torfason endaði athöfnina með stuttu erindi.
Þann 29. júní 1922 var hús Hjálpræðishersins á Ísafirði vígt við hátíðlega athöfn. Fjársöfnun til byggingarinnar hafði staðið frá árinu 1916 og við vígsluna höfðu safnast um 50 þús. krónur en erfiðlega gekk að fá bankastofnanir landsins til að lána fé til þessarar framkvæmdar. Að lokum tókst þó að fá nauðsynleg lán til að koma húsinu upp. Bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar hlutaðist til um 30 þús. króna lán úr hafnarsjóði bæjarins gegn því skilyrði að gamalmennahæli yrði í kjallara hússins. Framkvæmdir hófust í þriðjudaginn 24. ágúst 1920 og var haldið áfram þangað til frost og snjóar hömluðu frekari vinnu. Í byrjun júlímánaðar 1921 var verkinu haldið áfram þar til því var að fullu lokið. Í tímaritinu Ægi er sagt frá vígslunni og húsinu lýst með eftirfarandi hætti:
"Húsið var byggt í tvennu lagi, þannig að við norðurgafl aðalbyggingarinnar er útbygging með skúrþaki 10X16 álnir að stærð, og einungis ein hæð og kjallari. Í útbyggingu þessari er samkomusalur með anddyri, og í kjallaranum stórt eldhús, búr, þvottahús og geymsla. Aðalbyggingin er aftur á móti 13X26 álnir, tvær hæðir, port og þurkloft efst og kjallari, sem er grafinn rúma alin undir jörð. Í henni eru 33 íbúðarherbergi og stofur. Af þeim tilheyra gamalmennahælinu, sem er í kjallara hússins, 7 svefnherbergi með 15 rúmum og 1 setustofu. Gesta- og sjómannaheimilinu tilheyra 18 gestaherbergi með 35 rúmum og þrjár stofur. Íbúð starfsfólksins er fjögur herbergi. Auk þess eru í því: 1 eldhús, 1 baðherbergi, 3 vatnssalerni, rúmgóðir gangar og anddyri. Húsið er bygt úr steinsteypu og er alt raflýst, 24 herbergi hafa miðstöðvarhitun frá eldavélinni sem maturinn er soðinn á; í hinum herbergjunum eru kolaofnar. Yfirleitt mun frágangur hússins allur yta og innra, vera sæmilegur og betri en yfirleitt er venja hér um slóðir. Einkanlega hefir áhersla verið lögð á það, að gera gamalmennaheimilið þannig úr garði, að það gæti orðið hvorttveggja í senn: til sóma fyrir bæjarfélagið, sem hefir hlutast til um byggingu þess, og gott skjól og hæli fyrir hruma og lasburða gamalmenni, sem eiga að hafa þar dvalastað á komandi árum.
Hr. byggingarmeistari Einar Erlendsson í Reykjavík hefir gert uppdrátt að húsinu að nokkru leyti. Yfirsmiður byggingarinnar var hr. trésmiður Jón H. Sigmundsson, bæjarfulltrúi á Ísafirði. Hefir hann dæmafárri eljusemi, dugnaði og hagsýni unnið fyrirtæki þessu alt það gagn, sem honum hefir verið unt að veita. Yfirmúrari var hr. Rögnvaldur Þorsteinsson, Reykjavík, og er víst óhætt að fullyrða, að betri mann, að öllu leyti, var ekki hægt að fá til þess starfa."
Þótti bygging gistihúss og sjómannahælis Hjálpræðishersins eitt hið mesta þarfa- og nauðsynjaverk fyrir Ísafjörð og umhverfi hans og alla þá er þangað áttu erindi. „Má svo heita að ferðamenn hafi oft verið á hrakhólum er þeir hafa komið hingað til bæjarins, þeir er eigi hafa haft til kunningja að hverfa. Enda hefir og notkun hússins best sannað hina brýnu þörf þess, því að oftast hafa fullskipuö verið gestaherbergin síðan húsið var opnað“, segir í Morgunblaðinu 29. júlí 1922.
Heimildir:
Jólatíðindi, 24. desember 1920, 3 og 5.
Morgunblaðið, 29. júlí 1922, 1-2.
Ægir, 1. ágúst 1922, 123-124.