Þessa fallegu götumynd tók M. Simson sem var ljósmyndari um árabil á Ísafirði. Lengst til hægri er „Hótel Nordpolen“ hús Sölfa Thorsteinssonar hafnsögumanns og veitingamanns, byggt árið 1879. Við hliðina er tilheyrandi hjallur en því næsta Fangahúsið sem var byggt árið 1874. Það brann til grunna aðfaranótt 29. febrúar 1924 og var þá einn maður í húsinu – Björn Kristjánsson, 16 ára unglingspiltur sem brann inni. Lá nærri að steinhúsið við hliðina brynni einnig því eldur komst í þakskeggið og logaði þar um stund áður en tókst að slökkva hann. Segir blaðið Vesturland um þennan atburð: "Bruni þessi er hryllilegur fyrir þær sakir, að maður skyldi brenna þar inni. Því vissulega er ekki hægt að hugsa sér margt er jafnist við það, að vera lokaður inni í brennandi húsi. Er slys þetta óafmáanleg skömm fyrir bæinn. Þá er það ekki lítil hneysa fyrir bæinn, sem nýbúin er aðleggja mikið fé í slökkviáhöld, að þau skuli að engu liöi verða, það eina sinn, sem þeirra er þörf. Áhöld þessi eru svo góð, að í flestum eða öllum tilfellum mun mega stöðva með þeim bruna hér, ef í lagi eru. (Vesturland 5. mars 1924, 2). Í Fangahúsinu var jafnframt skjalageymsla sýslumanns og bæjarstjórnar. Fóru þar forgörðum fyrstu gerðarbækur bæjarstjórnar og bæjarfulltrúanna, mikið af dómsmálabókum, þar á meðal bækur þær, sem geymdu þinghöld og rannsókn Lárusar H. Bjarnasonar í Skúlamálunum.
Lengst til vinstri á myndinni er Pólgata 8-10 en húsið var einnig lengi þekkt undir nafninu „Stjarnan“. Þetta reisulega steinsteypuhús var byggt á árunum 1910-1911 af Eðvarð Ásmundssyni kaupmanni. Landssímastöðin flutti inn í nr. 10 fljótlega eftir að húsnæðið var tilbúið og var þar til húsa um árabil. Árið 1926 fékk útibú Landsbanka Íslands aðstöðu í nr. 8 og var þar til ársins 1934 er það flutti í hús Tryggva Jóakimssonar við Aðalstræti 24 og þaðan í núverandi húsakynni árið 1958.
Ljósmyndin kemur úr albúmi sem tilheyrði Sigríði J. Guðmundsdóttur ljósmyndara en hún vann á ljósmyndastofu Simson. Albúmið var í dánarbúi Hinriks Guðmundssonar, skipstjóra á Ísafirði, og var afhent Ljósmyndasafni Ísafjarðar í apríl 2014.