Árið 1937 var stofnað flugfélag á Akureyri að tilhlutan Agnars Kofoed Hansen flugmanns og Vilhjálms Þór kaupfélagsstjóra á Akureyri. Keypt var fjögurra sæta farþegaflugvél af gerðinni Waco-YKS-7, smíðuð í Bandaríkjum. Flugvélin kom til landsins í lok ársins 1937 og fékk skráningarstafina TF-ÖRN. Fyrsta reynsluflug hennar á Íslandi var 29. apríl 1938 og þremur dögum síðar, 2. maí, var flogið til Akureyrar með póst. Þann 4. maí fór hún síðan í fyrsta áætlunarflug sitt milli Reykjavíkur og Akureyrar. Flugvélinni TF-ÖRN var sérstaklega ætlað að halda uppi flugferðum milli Reykjavíkur og Norðurlandsins enda gjarnan kölluð „Akureyrarflugvélin“. Þá átta mánuði ársins 1938, sem vélin var í rekstri flutti hún samtals 750 farþega í 358 flugum, eða að meðaltali um tvo farþega í hverju flugi. Til Akureyrar var flogið 60 sinnum, og til Siglufjarðar 61 sinni. TF-ÖRN var fyrstu tvö árin á flotholtum enda á þeim tíma lítið um nothæfa lendingarstaði á landi en frá 9. júlí 1940 var hún á hjólum. Hún skemmdist töluvert í þremur slysum á árunum 1940 og 1941, en gereyðilagðist síðan í misheppnuðu flugtaki 14. apríl 1942. TF-Örn var í raun fyrsta flugvél Flugleiða því Flugfélag Akureyrar varð að Flugfélagi Islands sem síðar sameinaðist Loftleiðum með stofnun Flugleiða. (Heimild: Morgunblaðið, 16. ágúst 2003, bls. 33 og 28. mars 2002, bls. 8)
Til Ísafjarðar kom TF-Örn í fyrsta sinn föstudaginn 20. maí 1938 samkvæmt frétt sem birtist í fréttablaðinu Skutli:
Örninn kom öðru hverju til Ísafjarðar í farþegaflugi en áætlun var þó engin. Flugfélag íslands, sem var arftaki Flugfélags Akureyrar, hélt uppi ferðum til Ísafjarðar eftir 1940 og var vélin þá jafnan afgreidd frá Norðurtangabryggjunni.