Mars 2014

TF-ÖRN

Árið 1937 var stofnað flugfélag á Akureyri að tilhlutan Agnars Kofoed Hansen flugmanns og Vilhjálms Þór kaupfélagsstjóra á Akureyri. Keypt var fjögurra sæta farþegaflugvél af gerðinni Waco-YKS-7, smíðuð í Bandaríkjum. Flugvélin kom til landsins í lok ársins 1937 og fékk skráningarstafina TF-ÖRN. Fyrsta reynsluflug hennar á Íslandi var 29. apríl 1938 og þremur dögum síðar, 2. maí, var flogið til Akureyrar með póst. Þann 4. maí fór hún síðan í fyrsta áætlunarflug sitt milli Reykjavíkur og Akureyrar. Flugvélinni TF-ÖRN var sérstaklega ætlað að halda uppi flugferðum milli Reykjavíkur og Norðurlandsins enda gjarnan kölluð „Akureyrarflugvélin“. Þá átta mánuði ársins 1938, sem vélin var í rekstri flutti hún samtals 750 farþega í 358 flugum, eða að meðaltali um tvo farþega í hverju flugi. Til Akureyrar var flogið 60 sinnum, og til Siglufjarðar 61 sinni. TF-ÖRN var fyrstu tvö árin á flotholtum enda á þeim tíma lítið um nothæfa lendingarstaði á landi en frá 9. júlí 1940 var hún á hjólum. Hún skemmdist töluvert í þremur slysum á árunum 1940 og 1941, en gereyðilagðist síðan í misheppnuðu flugtaki 14. apríl 1942. TF-Örn var í raun fyrsta flugvél Flugleiða því Flugfélag Akureyrar varð að Flugfélagi Islands sem síðar sameinaðist Loftleiðum með stofnun Flugleiða. (Heimild: Morgunblaðið, 16. ágúst 2003, bls. 33 og 28. mars 2002, bls. 8)

Til Ísafjarðar kom TF-Örn í fyrsta sinn föstudaginn 20. maí 1938 samkvæmt frétt sem birtist í fréttablaðinu Skutli:

Flugvélin „Örn“ frá Akureyri kom hingað til bæjarins kl. 6.20 síðdegis í gær. Í vélinni voru aðeins tveir menn, Agnar Kofoed Hansen flugmaður, og vélamaður. Örninn flaug nokkur hringflug yfir bæinn og nágrennið, og kostaði sætið 15 krónur fyrir 15 mínútna ferðalag. Fjóra farþega tók flugvélin í hvert sinn. Alls flugu hér á föstudaginn 30—40 manns. Í það skifti, sem ritstjóri Skutuls [Hannibal Valdimarsson] fór í loftið, fór vélin norður i Djup inn yfir Vigur, norður að Æðey og þaðan yfir fjarðarmynnin vesturum. Síðan úteftir Djúpinu vestanverðu inn Skutulsfjörðinn, yfir bæinn, inn yfir Pollinn og út Sund. Lagst var við Norðurtangabryggju og þaðan var lagt af stað. Allt gekk eins og i ágætustu lygasögu. (Skutull, 21. maí 1938, 1)

Örninn kom öðru hverju til Ísafjarðar í farþegaflugi en áætlun var þó engin. Flugfélag íslands, sem var arftaki Flugfélags Akureyrar, hélt uppi ferðum til Ísafjarðar eftir 1940 og var vélin þá jafnan afgreidd frá Norðurtangabryggjunni.