Áður fyrr tíðkaðist það að ungar konur færu í húsmæðraskóla til að búa sig undir væntanleg húsmóðurstörf. Þar lærðu þær allt sem nauðsynlegt var fyrir húsmæður að vita og kunna, t.d. matargerð, fatasaum, útsaum og prjón en einnig voru þeim kennd hagnýt fræði eins og búreikningar, næringarfræði og heilsufræði. Húsmæðraskólinn Ósk var stofnaður árið 1912 af Kvenfélaginu Ósk og starfaði allt til ársins 1989 þegar hann sameinaðist Iðnskólanum og Menntaskólanum á Ísafirði í Framhaldsskóla Vestfjarða. Þegar starfsemi húsmæðraskólans var í sem mestum blóma flykktust ungar stúlkur víða að af landinu til Ísafjarðar og margar völdu sér eiginmann úr röðum föngulegra heimamanna. Á myndinni má sjá námsmeyjar í húsmæðraskólanum einbeittar við matargerð í kringum 1970. Myndina tók Magnús Jónsson frá Skógi (1905-1975) sem var mikill áhugamaður um ljósmyndun og er ljósmyndasafn hans varðveitt á Ljósmyndasafninu Ísafirði.