Október 2020

 

AÐALSTRÆTI 24 BRENNUR ÁRIÐ 1918

Um hádegisbil mánudaginn 2. september 1918 kom upp eldur í húsinu við Aðalstræti 24 á Ísafirði og brann það til grunna á stuttum tíma. Húsið byggði Finnur Thordarson árið 1904 fyrir framan íbúðarhús sitt sem varð eftir það Aðalstræti 24a. Var gamla húsið, byggt 1852, stórskemmt eftir brunann og rifið í kjölfarið. Bæjarblaðið Vestri segir svo frá þessum atburði:

Eldsvoði.

Hús Elíasar og Edwalds brennur til kaldra kola.

Um hádegisbil í gærdag (2. sept.) kviknaði í verslunar- og íbúðarhúsi þeirra Elíasar Pálssonar og Jóns Edwalds hér í bænum og brann það til ösku á 2 klukkustundum. Næsta hús ofan við (Gamla bakaríið), eign sömu manna, varð með naumindum varið frá að brenna að fullu, en er svo rifið og sviðið, að það er gereyðilagt.

Tildrög. Talið er áreiðanlegt, að kviknað hafi út frá prímus hjá gamalli konu, Gróu Guðmundsdóttur, er bjó í herbergi á efsta lofti. Fólkið neðar í húsinu veitti reyknum eftirtekt og er komið var upp stóð herbergi konuunar í báli; varð henni með naumindum bjargað úr loganum niður stigann. Eldurinn var þá tekinn að læsa sig óðfluga um alla efstu hæð hússins. Samstundis var fólk kallað til hjálpar og brunalúðurinn kom rétt strax til þess að kalla menn saman, og gekk það greiðlega, því allur fjöldi manna var að störfum í bænum. Komu líka sjómenn af öllum hinum útlendu skipum, er hér liggja, til hjálpar.

Björgun. Var þegar horfið að því að bjarga út úr húsinu. Í kjallarnum var brauðgerð Helga Eiríkssonar. Þar var mjölvara nokkur, brauðgerðinni tilheyrandi og allmikið af vörum Landsverslunarinnar. Vörurnar náðust þaðan nær allar, en talsvert brann af kolum og matvælum. Á neðstu hæð var sölubúð Landsverslunarinnar og talsvert af vörum húseigenda sjálfra, og skrifstofa inn af búðinni, einnig íbúð annars eigandans, Elíasar Pálssonar. Var öllu bjargað þaðan. Á miðlofti bjó hann húseigandinn, Jón Edwald, og náðist mest at húsgögnum hans, en eitthvað löskuð. Á efsta lofti bjó Guðmundur Jónsson gjaldkeri. Hann var við vinnu sína í Landsbankanum og hafði tekið með sér lyklana að herbergjum sínum. Varð því eigi komist inn til hans nógu snemma, svo alt brann þar, húsgögn og fatnaður, nema ritvél og annar ómerkiiegur hlutur, er náðist. Meðal annars fórust þarna bækur allar og skjöl bæjarins, svo og rúmar 1000 kr. í peningum, mest nýinnkomin bæjargjöld. Einnig bjuggu þar Guðmundur Magnússon og Gróa Guðmundsdóttir kona hans, sem fyr er nefnd. Þau mistu og alt sitt. Það var sýnt ettir örstutta stund, að eigi yrði slökt í húsinu, sem fyrst kviknaði í. Var því tekið að breiða segl og dæla vatni á næstu hús, Gamla bakaríið, hús G. Bergssonar o.fl. Rösklega var gengið fram í að verja Gamla bakaríið og tókst loks að varna því, að það brynni að fullu. En lafhægt hefði verið að verja það hús öllum skemdum, ef slökkviáhöldin væru eigi jafn fádæma léleg og þau eru. Og meira að segja er Iíklegast, að tekist hefði að slökkva eldinn strax með góðum áhöldum, því logn var, svo eldurinn gaus ekki sérlega fljótt upp, og mannfjöldi mikill við hendina. Hér var mikið lán í óláni að kyrt var veður. Hefði vestanvindur verið, mundi pósthúsið hafa brunnið, skúrarnir þar við og svo Café Ísafjörður o. s. frv. Bræðraborgarhúsin voru og í hættu. Kann enginn að segja hve víðtækur eldsvoðinn hefði orðið, ef ekki hefði verið logn. Margir gengu vasklega fram við björgunina og slökkvitilraunirnar. Kvenfólkið var einkar ötult við vatnsburð. — Við hinu er varla að búast, að fullkomin regla komist á við bruna, með sama fyrirkomulagi og nú er. Einn maður (Jóhannes jensson, skósmiður) varð fyrir því slysi að fótbrotna. Nokkrir fengu brunameiðsl á höndur.

Tjónið. Stærra húsið var virt til brunabóta á 38750 kr., en gamla bakaríið á 8890 kr., en 1/6 af tryggingarupphæðinni fá eigendur eigi borgaðan. Nú munu húseignirnar langtum meira virði, auk þess sem eigendurnir bíða atvinnutjón mikið. Hafa þeir því orðið fyrir miklu tjóni. Húsgögn Guðm. Jónssonar gjaldkera voru lágt vátrygð. Auk margra góðra muna átti hann og vandað bókasafn. Bærinn hefir orðið fyrir tjóni miklu, sem eigi er auðyelt að meta til fjár, við að missa bækur sínar og skjöl. Hjónin á efsta lofti mistu og aleigu sína, og þá er ekki hægt meira að missa. Helgi bakari misti bökunaráhöldin, sem gerir honum ómögulegt, að taka upp atvinnu sína í bráð. Ýmsir fleiri, sem eigi eru hér nefndir, urðu og fyrir meira og minna tjóni. Loks er að minnast á tjón það, sem orðið hefir við að missa tvö hús úr íveruhúsatölu bæjarins í þeirri húsnæðiseklu, sem nú er, og eigi er séð fyrir endann á. Þetta er mesta brunatjónið, sem Brunabótafélag Íslands hefir beðið, síðan það var sett á stofn. (Vestri, 2. september 1918, 72-73)

Fremst á myndinni hér að ofan blasir við húsgrunnur Aðalstrætis 24, á bak við er gamla húsið við Aðalstræti 24a og til vinstri er hús Guðmundar Bergssonar (Pósthúsið). Ljósmyndari er óþekktur en myndin úr fórum Jónasar Magnússonar, Ísafirði.

Á þessari mynd sjást húsin fyrir brunann. Ljósm. Björn Pálsson, Ísafirði.