Á Sæluhelgi á Suðureyri dagana 10. - 13. júlí 2003 vildi það óhapp til á föstudeginum að stórt samkomutjald fauk ofan af gestum á fjölskylduhátíð í Staðardal. Þar höfðu tæplega 200 gestir höfðu safnast saman og voru margir þeirra inni í tjaldinu þegar sterk vindhviða varð þess valdandi að tjaldið lyftist upp af 60 sentimetra löngum hælum sem höfðu haldið því niðri. Tjaldið snerist við í hviðunni og lenti á þakinu en brotnaði ekki saman. Þremur bílum hafði verið lagt við ofanvert tjaldið og urðu undir því en engar skemmdir urðu á bílunum. Einn gestur fékk borð á fótinn á sér og meiddist lítillega en engin alvarleg meiðsli urðu á gestum sem létu atvikið ekki á sig fá og reistu skjólvegg úr tjaldinu. Skjólveggurinn hélt það sem eftir lifði og dagskrá hátíðarinnar var haldið áfram fram eftir kvöldi.
Upphaf Sæluhelgarinnar má rekja til sumarsins 1987 þegar Ævar Einarsson stóð fyrir fyrstu marhnútaveiðikeppninni fyrir börn en keppnin felst í að veiða sem flesta mansa á klukkutíma án aðstoðar foreldra. Síðan er hver mansi vigtaður jafn óðum og geymdur í kari með sjó í. Að keppni lokinni er öllum mönsunum sleppt aftur. Fyrsta eiginlega sæluhelgin var svo haldin í júlí 1995 þegar Marhnútavinir stóðu fyrir tveggja daga hátíðarhöldum á Suðureyri í tengslum við mansakeppnina.
Myndir úr ljósmyndasafni Þorsteins J. Tómassonar