September 2019

JÓAKIM SNIKKARI OG HÆNURNAR

Á myndinni, sem er tekin árið 1924, má sjó Jóakim Jóakimsson fóðra hænur sínar í bakgarðinu við húsið að Tangagötu 31 á Ísafirði. Jóakim var fæddur 17. september 1852 að Syðri-Tungu á Tjörnesi. Foreldrar hans, Jóakim Jóakimsson og Guðný Magnúsdóttir, fluttust 1856 að Árbót i Aðaldal og þar ólst Jóakim upp til 17 ára aldurs. Þá réðist hann sem trésmíðanemi til Tryggva Gunnarssonar, síðar bankastjóra. Þjóðhátíðarárið 1874 fluttist Jóakim til Ísafjarðar og bjó þar síðan. Stundaði hann iðn sína fram yfir áttræðisaldur, fyrstu árin mestmegnis húsasmíðar og síðast eingöngu verkstæðisvinnu og þá einkum líkkistusmíðar. Taldist honum svo til að um ævina hefði hannsmíðað um 2500 líkkistur. Húsið við Tangagötu 31 reisti hann árið 1894 og var þar bæði með verkstæði og verslun. Jóakim lét nokkuð að sér kveða í bæjarmálum, sat m.a. í bæjarstjóm og um árabil í byggingarnefnd og sóknarnefnd.

Jóakim var fjórkvæntur. Fyrsta kona hans, sem hann gekk að eiga 1879, var María Sigríður Kristjánsdóttir, systurdóttir Ásgeirs Ásgeirssonar skipherra og kaupmanns, stofnanda Ásgeirsverzlunar. María lést mislingaárið 1882 en með henni átti Tryggvi þrjú börn, dóu tvö í æsku en einn sonur lifði, Tryggvi sem síðar átti og rak Gamla bakaríið. Árið 1885 giftist Jóakim Sigríði Ásmundsdóttur en hún lést árið 1915. Ári seinna gekk hann í hjónabandi með Halldóru Margréti Kristjánsdóttur, sem var systir fyrstu konu hans, en hún lést eftir tveggja ára sambúð. Fjórða og síðasta kona Jóakims var Olga Andreasen og lifi hún mann sinn en hann lést 6. febrúar 1942 á nítugasta aldursári. Jóakim eignaðist engin börn með síðari eiginkonum sínum.

Jóakim var hraustmenni til burða og kenndi sér sjaldan meins. Á 75 ára afmælisdegi sínum sagði hann: „Ég hefi átt því láni að fagna, að vera alla æfi sérlega heilsugóður; hefi aldrei kent mér nokkurs meins, nema stöku sinnum gigtar og þá af átökum eða ofreynslu.“ Í minningargrein um hann sagði: „ Jóakim þótti afkasta verkmaður, en jafnframt vandaði hann smíðarnar. – Hann var glæsilegur á velli og vel farinn i andliti. Hafði farsælar gáfur. Skapfestu maður mikill og lét ekki af skoðunum sínum, við hvern sem við var að eiga, og hafði það til að vera bitur í tilsvörum og óvæginn. Trölltryggur þeim málstað er hann taldi réttan.“

Ljósmyndari: M. Simson nr. 9049b/1924

Heimild: Vesturland 7. febrúar 1942, 23