þriðjudagur 23. mars 2021 | kl. 15:29:11 | Ljósmyndasafnið Ísafirði

Ljósmyndir danska lyfsalans Gustav Rasmussen á vefnum

Árið 1910 urðu þáttaskil í lyfjasölu á Ísafirði þegar lyfsalan var falin sérfræðingi í lyfjafræði og Carl Gustav Adolph Rasmussen lyfsala var veitt lyfsöluleyfi. Hann var fæddur í Grenå í Danmörku 9. desember 1882 og lauk prófi í lyfjafræði árið 1906 í Kaupmannahöfn. Starfaði hann síðan í apótekum víða í Danmörku en í nóvember 1907 varð hann lyfjasveinn við Reykjavíkurapótek þar sem hann starfaði til 1. janúar 1911. Rasmussen var veitt lyfsöluleyfi á Ísafirði 15. september 1910 en opnaði ekki apótek þar fyrr en 23. febrúar 1911. Tók hann á leigu húsnæði að Pólgötu 1 en húsið byggði Einar Bjarnason kaupmaður árið 1901. Rasmussen keypti húsið 1. febrúar 1917 og bjó þar með fjölskyldu sinni þar til þau fluttu frá Ísafirði sumarið 1920.

Þegar Rasmussen fór frá Ísafirði keypti hann apótek í fæðingarbæ sínum Grenå en 1931 keypti hann lyfjabúð í Álaborg þar sem hann starfaði til dánardægurs 7. ágúst 1939. Eiginkona Rasmussen var Eleonora Jørgine Elise Sørensen, fædd 22. júlí 1884 í Árósum, dáin 11. júlí 1962 í Álaborg. Þau eignuðust 10 börn sem náðu fullorðinsárum og voru fimm þeirra fædd á Ísafirði. Rasmussen var áhugamaður um ljósmyndun og tók mikið af myndum, aðallega fjölskyldumyndir en einnig umhverfismyndir sem flestar eru teknar á Ísafirði. Alls telur safn Rasmussen um 250 glerplötur en það var barnabarn hans, Gorm Frederik Rasmussen, sem afhenti þær Ljósmyndasafninu á Ísafirði til eignar og varðveislu. Gorm er sonur Gustav Emanuel Christian Rasmussen sem fæddist á Ísafirði 22. október 1911 og lést 7. janúar 1994 í Álaborg. Var hann lyfsali eins og faðir hans.

Ljósmyndir Rasmussen má skoða á vefnum Sarpur en einnig er hægt að skoða þær hér.