Sjúkrahúsið var vígt 17. júní 1925 við hátíðlega athöfn. Guðmundur Björnsson landlæknir vígði húsið og Guðmundur E. Geirdal, skáld, hafði ort vígsluljóð og voru þau flutt og sungin við vígsluna. Um kvöldið var haldin skemmtun. Sjúkrahúsið var glæsilegasta hús sinnar tegundar hér á landi á sínum tíma og ber vitni um stórhug og djörfung þeirra sem að því stóðu.
Vilmundur Jónsson var skipaður héraðslæknir á Ísafirði árið 1919. Sama ár hóf bæjarstjórn Ísafjarðar undirbúning að byggingu nýs sjúkrahúss vegna ábendingar Vilmundar um þörf á auknu húsnæði. Byrjað var að leita samstarfs við sýslufélag Norður-Ísafjarðarsýslu sem samþykkti árið 1921 að taka þátt í byggingunni í félagi við kaupstaðinn.
Um veturinn sama ár voru sveitarstjórnakosningar og náðu jafnaðarmenn meirihluta í bæjarstjórninni með Vilmund í forustu. Þegar hér er komið sögu lá fyrir uppdráttur hússins og kostnaðaráætlun, gert af húsameistara ríkisins Guðjóni Samúelssyni. Var leitað hófanna hjá fjár- veitingavaldinu en ekkert þokaðist þar um fyrr en 1923, en þá samþykkti meirihluti bæjarstjórnar fjárhagsáætlun, sem gerði ráð fyrir framlagi til nýs sjúkrahúss. Þegar ljóst var að hugur fylgdi máli var málið flutt fyrir Alþingi og samþykkti fjáveitinganefnd að mæla með 25 þúsund króna styrk til verksins á fjárlögum ársins 1924, en þá lá fyrir endurskoðuð kostnaðaráætlun upp á 220 þúsund krónur. Jafnframt var gert ráð fyrir því að sömu upphæð yrði veitt næstu tvö árin. Hins vegar samþykkti Alþingi fjárveitinguna með því skilyrði að tryggt væri framlag kaupstaðarins og sýslunnar og að þau ábyrgðust sameiginlega að verkið yrði fullnægjandi og til lykta leitt.
Nú brá svo við að þingmaður Norður-Ísafjarðarsýslu taldi ráðlegra að fresta málinu og greiða ríkisframlagið allt í einu, undir þetta tók sýslunefnd og ákvað að fresta málinu til næsta árs. Nú gerðist atburðarásin hröð og bæjarstjórn tók málið í sínar hendur. Gerð var samþykkt þess efnis að hefja undirbúning framkvæmda, þannig að ríkisstyrkurinn fengist og hægt yrði að hefjast handa strax um haustið. Sýslunefndarmenn voru fengnir til að skrifa undir ábyrgð án skuldbindingar um fjárframlög. Niðurstaðan var sú að kaupstaðurinn stóð einn að byggingunni ásamt ríkinu. Um haustið 1923 hófst vinna á vegum bæjarins við aðdrætti byggingarefnis til hússins og höfðu af því vinnu 30 til 50 menn, sem var kærkomið í árvissu atvinnuleysi þessara ára. Byggingin var boðin út og bárust húsameistara ríkisins sex tilboð í verkið. Lægsta boðið var tekið, en það átti Ásgeir G. Stefánsson húsasmíðameistari og fleiri iðnaðarmenn úr Hafnarfirði.
Sumarið 1924 hófust framkvæmdir og höfðu menn orð á þeim vönduðu vinnubrögðum, sem þar voru viðhöfð. Húsið var komið undir þak fyrir áramót og á nýju ári var unnið að innréttingum og frágangi fram á sumar. Heildarkostnaður við bygginguna var 248.107.82 krónur. Sjúkrahúsið var vígt 17. júní 1925 við hátíðlega athöfn. Guðmundur Björnsson landlæknir vígði húsið og Guðmundur E. Geirdal, skáld, hafði ort vígsluljóð og voru þau flutt og sungin við vígsluna. Um kvöldið var haldin skemmtun. Sjúkrahúsið var glæsilegasta hús sinnar tegundar hér á landi á sínum tíma og ber vitni um stórhug og djörfung þeirra sem að því stóðu. Það var eign Ísafjarðarkaupstaðar og rekið að öllu leyti fyrir hans reikning og á hans ábyrgð, eins og sagði í reglugerð sem bæjarstjórnin setti um það.