Söfnin
Fjögur söfn hafa í dag aðsetur í Safnahúsinu á Ísafirði, en það eru Bókasafn Ísafjarðar, Skjalasafnið Ísafirði, Ljósmyndasafnið Ísafirði og Listasafn Ísafjarðar. Safnahúsið var opnað þann 17. júní árið 2003, eftir umfangsmiklar endurbætur. Húsið hafði þjónað sem sjúkrahús til ársins 1989, en það sama ár var ákveðið að nýta húsið sem safnahús. Forsvarsmönnum safnanna í bænum þótti það ákjósanlegur kostur, enda myndi rými safnanna aukast til mikilla muna við það. Fjögur söfn höfðu um árabil starfað saman í húsnæði á efri hæðum Sundhallar Ísafjarðar við mikil þrengsl: Bókasafn, skjalasafn, listasafn og byggðasafn.
Bókasafnið er elst safnanna, stofnað árið 1889. Það hafði aðsetur á nokkrum stöðum í gegnum árin, en var komið fyrir á efri hæð Sundhallar Ísafjarðar árið 1946, sem þá átti að vera tímabundin ráðstöfun. Skjalasafnið er næstelst, stofnað árið 1952. Jóhann Gunnar Ólafsson, sýslumaður og bæjarfógeti á Ísafirði, var einn helsti hvatamaður þess. Í aðfangabók skjalasafnsins kemur fram að stór hluti af fyrstu afhendingum til safnsins komu frá sýslumanni. Þegar skjalasafnið var stofnað hafði það sömu stjórn og bókasafnið, og var ætlað húsnæði samhliða því.
Söfnun gripa fyrir byggðasafn hafði staðið yfir frá því 1941, en Byggðasafn Vestfjarða var ekki formlega stofnað fyrr en 1956. Á þeim tíma voru í gangi framkvæmdir við Sundhöll Ísafjarðar, til að setja reist þak á húsið. Loftið sem við það myndaðist varð að húsakosti byggðasafnsins. Formaður stjórnar byggðasafnsins var fyrrnefndur sýslumaður, Jóhann Gunnar Ólafsson, sem kom enn og aftur við sögu þegar Listasafn Ísafjarðar var stofnað árið 1963. Listasafnið deildi húsnæði með byggðasafninu á lofti sundhallarinnar.
Þó ákvörðun hafi verið tekin um að flytja í nýtt húsnæði árið 1989 drógust framkvæmdir nokkuð á langinn. Hluti af starfi safnanna var þó fluttur í nýtt húsnæði áður en safnahúsið var opnað almenningi. Við opnunina 2003 höfðu öll fjögur söfnin þar aðstöðu, og hið fimmta bættist við: Ljósmyndasafnið Ísafirði er yngst safnanna, formlega stofnað þegar söfnin fluttust yfir í Safnahúsið árið 2003. Ljósmyndir höfðu þá verið sérstök deild hjá skjalasafninu í nokkra áratugi, en auk þess var umtalsvert af ljósmyndum í safnkosti Byggðasafns Vestfjarða.
Byggðasafnið sagði ekki strax skilið við hin söfnin, en skrifstofur þessu voru áfram í Safnahúsinu um allnokkurt skeið. Þær voru fluttar í Neðstakaupstað árið 2018. Fyrrum aðstaða safnanna í Sundhöll Ísafjarðar er nú að mestu notuð undir skólastarf.