Um Safnahúsið

Friðlýst hús: Gamla sjúkrahúsið

Safnahúsið, gamla sjúkrahúsið, er á lista yfir friðlýst hús og mannvirki. Það var friðað af menntamálaráðherra 15. desember 1999 samkvæmt 1. mgr. 35. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989. Friðun tekur til ytra borðs. Sjá meira hér.

Safnahúsið stendur á Eyrartúni, skammt frá þar sem áður var bæjarstæði Eyrarbæjarins. Talið er líklegt að byggð á Eyri hafi hafist þegar á landnámsöld og þar verið búið samfellt til ársins 1872 þegar kaupstaðurinn keypti jörðina. Kirkjan stendur innan kirkjugarðs þar spölkorn frá, um aldir kennd við Eyri en heitir í dag Ísafjarðarkirkja. Bæjarstæðið er grasi gróinn og fremur flatur hóll, um 1 m hár þar sem hann rís hæst upp úr túnvellinum í kring. Fornleifarannsókn var gerð á bæjarhól Eyrar við Skutulsfjörð í júlí árið 2003.

Í teikningasafni Húsameistara ríksins, sem varðveitt er á Þjóðskjalsafni, má finna teikningar Guðjóns Samúelssonar arkitekts (1887–1950) af gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði. Guðjón var afkastamikill arkitekt og teiknaði margar opinberar og þekktar byggingar sem setja svip sinn á ýmsa þéttbýlisstaði á Íslandi.

Í Morgunblaðinu 11. nóvember 2001 birtist greinargóð samantekt um Safnahúsið, gamla sjúkrahúsið, þar sem farið er yfir sögu hússins, þá ákvörðun að gera það að menningarhúsi og þær gagngeru endurbætur sem þurfti að fara í.