Skipan hússins
![Bogaherbergi](/upload/husid/IMG_4969.jpeg)
Aðalinngangur Safnahússins er að sunnanverðu. Hönnun hússins ber ljóslega með sér að þar var gert ráð fyrir megininngangi en anddyrið var yfirleitt notað til annarra þarfa á meðan sjúkrahúsið starfaði sem slíkt – enda rík þörf fyrir plássið. Á fyrstu hæð er að finna útlánsbækur bókasafnsins og afgreiðslu, ásamt aðstöðu fyrir börn og ungmenni.
Aðalstigagangur byggingarinnar er breiður og mikill, enda þurfti að flytja rúmfasta sjúklinga þar um. Í dag er lyfta í húsinu sem tryggir gott aðgengi að öllum hæðum. Á stigapalli og veggjum stigagangsins upp á aðra hæð má að jafnaði sjá listaverk tengd sýningum Listasafns Ísafjarðar.
![Stigagangur](/upload/husid/IMG_1176.jpeg)
Þegar komið er upp á aðra hæð blasir við fallegt bogaherbergi þar sem setjast má niður yfir kaffibolla og kíkja í dagblöð eða tímarit. Til hliðar eru vinnuherbergi, annað ætlað gestum en hitt starfsfólki bókasafnsins.
![Salur Listasafnsins](/upload/husid/IMG_2373.jpg)
Að öðru leyti skiptist hæðin í tvo stóra sali: Að vestanverðu er sameiginlegur lessalur bókasafns og skjalasafns en einnig aðstaða fyrir litla viðburði af ýmsu tagi. Að austanverðu er sýningarsalur listasafnsins. Í stiganum á leið upp á þriðju hæð má sjá ýmsa gripi frá þeim tíma þegar húsið þjónaði sem sjúkrahús. Sumir gripanna eru eldri eða frá tíma sjúkrahússins að Mánagötu 5 á Ísafirði sem var starfrækt 1897–1925. Á þriðju og efstu hæð hússins er vinnuaðstaða fyrir starfsfólk, skrifstofur og kaffistofa.
![Lessalur](/upload/boka/84CDA85B-742C-440B-91A0-5397609FF021.jpg)
Kjallari hússins er að mestu lokaður öðrum en starfsfólki að undanskildu vinnurými sem ætlað er fyrir námskeið og vinnustofur.
Salerni eru á öllum hæðum hússins. Salerni fyrir fatlaða er í kjallara, við hliðina á lyftunni.
Almenn bílastæði eru á bak við Safnahúsið, innáakstur frá Eyrargötu. Þar er eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða, við hliðina á inngangi í húsið með aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Almenn bílastæði eru einnig í Hafnarstræti, við enda gangstéttar að framanverðu við húsið.
![Gamlir munir frá sjúkrahúsinu](/upload/husid/SjukMunir2.jpg)