Afhenti ljósmyndasafninu 150 stereóskópmyndir

Ljósmyndasafninu barst á dögunum góð gjöf frá Sigurði B. Jóhannessyni í Reykjavík, áður Hvammi í Hnífsdal. Um er að ræða 150 stereóskópmyndir ásamt kíki til að skoða þær. Koma myndirnar upphaflega frá hjónunum Þórði Jónssyni (1858-1914) og Höllu Eyjólfsdóttur skáldkonu (1866-1937) á Laugabóli í Ísafirði við Ísafjarðardjúp. Seinni maður Höllu, Gunnar Steinn Gunnarsson (1876-1959), afhenti myndirnar Steinunni Sigurðardóttur í Hvammi Hnífsdal, móður Sigurðar B. Jóhannessonar. Faðir hennar var Sigurður Gunnarsson, bróðir Gunnars Steins.

Stereóskópmyndir eru tvær ljósmyndir teknar frá sama sjónarhorni með örlitlu millibili og síðan límdar upp hlið við hlið. Með því að skoða myndirnar með sérstökum hætti runnu þær saman í eitt og við það fékkst þrívíð mynd. Slíkar myndir voru fjöldaframleiddar og síðar var fundinn upp sérstakur kíkir til að skoða þær með. Uppistaðan í afhendingunni til ljósmyndasafnsins eru stereóskópmyndir frá Magnúsi Ólafssyni ljósmyndara (1862-1937) en hann var fyrstur til að fjöldaframleiða stereóskópmyndir hér á landi, einkum landslagsmyndir. 

Heimild: Inga Lára Baldvinsdóttir. Ljósmyndarar á Íslandi 1845-1945. Rvk 2001.

Velja mynd