Aðstaða

Darri og Uni

Börn og ungt fólk

Á fyrstu hæð safnsins má finna sérstaka barna- og krakkadeild. Auk fjölda barnabóka má þar að finna leikrými og hlýlega aðstöðu til þess að setjast niður og lesa, grípa í spil eða teikna.

Á fyrstu hæð hússins er einnig sérstök unglingadeild sem inniheldur ungmennabækur og teiknimyndasögur. Þar er einnig aðstaða til þess að setjast niður og glugga í bækur.  

Við leggjum áherslu á að börn og unglingar upplifi sig velkomin á bókasafninu og finni hér athvarf og hvatningu til lesturs. Á sumrin bjóðum við upp á Sumarlestur þar sem grunnskólabörnum er boðið að lesa bækur af safninu, skrá þær og taka þátt í happdrætti á vegum safnsins. Hvert sumar er sumarlesturinn með ákveðið þema — en börnin ráða lesefninu þó sjálf.

Reglulega eru haldnir viðburðir fyrir yngstu lánþegana. Þar má helst nefna bangsadaginn, heimsóknir jólasveina á aðventunni og barnabókahöfunda allt árið um kring. Viðburðirnir eru auglýstir víða um bæ og einnig á heimasíðunni okkar og á Facebook-síðunni.

Önnur hæð

Á 2. hæð hússins er fjölbreytt og sveigjanleg aðstaða sem hentar bæði einstaklingum og hópum.

Í tímaritastofu er úrval nýrra tímarita en þar er hægt að setjast niður og fá sér kaffisopa á meðan kíkt er í blöðin. Þar inn af er rými með les- og/eða hópaðstöðu auk íslenskra bókmennta, ljóðabóka og listbóka í hillum.

Lessalur er á annarri hæð sem inniheldur borð, stóla og setustofu. Þar geta gestir sest niður með eigin tölvur en boðið er upp á aðgang að þráðlausu interneti. Ýmsar handbækur og uppflettirit eru þar í hillum.

Hluti af lessalnum er hljóðeinangrað rými sem er kjörið fyrir hópa til þess að hittast í ró og næði auk þess sem einstaklingum er velkomið að nýta það sem lesrými. Hljóðeinangrandi veggur eykur notagildi rýmisins fyrir gesti safnsins og býður upp á ýmsa möguleika.

Lesrými listabóka

Sófar í lestrarsal

Glerherbergið