Um bókasafnið
Á seinni hluta 19. aldar var Ísafjarðarkaupstaður ört vaxandi og á meðal stærstu kaupstaða landsins. Með auknum fólksfjölda og menntunaráhuga almennings fóru bæjarbúar að kalla eftir stofnun bókasafns. Það leiddi til þess að Bókasafn Ísafjarðarkaupstaðar var formlega stofnað þann 13. júlí 1889.
Aðdragandi
Stofnunin átti sér langan aðdraganda en áhuga almennings má rekja til stofnun lestrarfélags í þorpinu árið 1866 og svo aftur árið 1884. Skúli Thoroddsen, sýslumaður og bæjarfógeti á Ísafirði, vakti máls á þessum áhuga í Þjóðviljanum árið 1888 en hann stakk upp á því að amtsbókasafnið í Stykkishólmi yrði flutt til Ísafjarðar, enda líklegt að aðsóknin yrði meiri á Ísafirði vegna fólksfjölda. Ekkert varð þó úr því.
Það var ekki fyrr en Iðnaðarmannafélag Ísafjarðar tók málið sér í hendur að hreyfing komst í þessi mál. Í apríl árið 1889 efndi Iðnaðarmannafélagið til hlutaveltu (tombólu) gagngert í þeim tilgangi að safna fyrir stofnun bókasafns. Þar söfnuðust 115 krónur. Skömmu síðar lagði Sparisjóður Ísafjarðar til styrk upp á 500 krónur og þar með var grundvöllur kominn fyrir stofnun safnsins.
Fyrstu bókaverðirnir
Útlán hófust formlega þann 6. nóvember árið 1889. Fyrsti bókavörðurinn var Grímur Jónsson yfirkennari. Árið 1913 tók athafnakonan Soffía Jóhannesdóttir við starfinu en hún var líklega fyrsta konan til þess að sinna starfi bókavarðar á Íslandi. Hún sinnti því starfi í sjö ár.
Starf bókavarðar var þó ekki full staða fyrstu áratugina og opnunartími safnsins takmarkaður. Árið 1928 ákváðu stjórnvöld að stofna og fjármagna sérstakt bókavarðarembætti á Ísafirði og var Guðmundur G. Hagalín ráðinn til þess þann 1. janúar 1929. Hið sama hafði verið gert á Akureyri árið 1925 þegar Davíð Stefánsson frá Fagraskógi var ráðinn bókavörður á Amtsbókasafninu þar. Stofnun þessara embætta var (pólitísk) leið til þess að efla menningarstarfsemi um landið og veita skáldum grundvöll til lífsviðurværis, nokkurs konar ritlaun. Í kjölfarið lengdist opnunartíminn smám saman og útlánum fjölgaði.
Húsnæði
Til að byrja með var safnið til húsa í barnaskólanum sem þá var við Silfurgötu 3. Tveimur árum síðar fluttist safnið í fyrrum þinghús, þar sem nú er skátaheimili. Fyrst um sinn var þar aðeins um útlánastarfsemi að ræða en árið 1906 var lestrarsalur opnaður á safninu. Árið 1929 flutti safnið svo í það hús sem lengi var pósthús Ísfirðinga, við Aðalstræti 18.
Næstu heimkynni safnsins voru á annarri hæð Sundhallar Ísafjarðar við Austurveg. Þangað var flutt árið 1946 og var húsnæðið hugsað til bráðabirgða. Starfsemin var þó staðsett þar til ársins 2003 þegar hún flutti í Safnahúsið, eða Gamla sjúkrahúsið eins og það er einnig kallað. Flutningarnir höfðu þá staðið til í ein 14 ár en ákvörðun um þá var tekin árið 1989.
Bókasafnið í dag
Í Safnahúsinu deilir Bókasafnið aðstöðu með Héraðsskjalasafni, Ljósmyndasafni og Listasafni Ísafjarðarbæjar. Síðust ár hefur áherslan færst frá því að sinna útlánum og upplýsingaþjónustu fyrst og fremst yfir í að bæta aðstöðu fyrir öll sem safnið sækja. Aukin áhersla er á fjölbreytta menningarviðburði og ýmiskonar fræðslu fyrir alla aldurshópa.