
Afhenti ljósmyndir úr fórum Þórunnar Gestsdóttur
Í lok ársins 2014 fékk Ljósmyndasafnið Ísafirði afhent til varðveislu ljósmyndir úr fórum Þórunnar Gestsdóttur. Myndirnar eru frá þeim tíma sem Þórunn var búsett á Ísafirði en hún starfaði sem upplýsinga- og ferðamálafulltrúi Ísafjarðarkaupstaðar 1996, aðstoðarmaður bæjarstjóra Ísafjarðarkaupstaðar 1996–98 og var verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða 1998. Það var Halldór Halldórsson, fyrrv. framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga og fyrrv. bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar sem afhenti myndirnar að ósk fjölskyldu Þórunnar en hún lést 5. september 2010.
Þórunn var fædd á Bíldsfelli í Grafningi 29. ágúst 1941 en ólst upp í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Hjördís Guðmundsdóttir (1920–1998) og Jón Elías Jónsson (1912–1942). Kjörfaðir Þórunnar var Gestur Benediktsson (1904–1965). Þórunn lauk landsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1958, tók leiðsögumannapróf 1970 og lauk prófi í opinberri stjórnsýslu og stjórnun frá Endurmenntun HÍ 1999. Hún vann aðallega við fjölmiðla og ferðamál um ævina, var m.a. flugfreyja hjá Loftleiðum 1961–62, leiðsögumaður og fararstjóri 1975–79, blaðamaður við Vísi 1980–81 og DV 1981–86. Hún var ritstjóri Vikunnar 1986-88 og útgefandi/ritstjóri tímaritsins Farvís 1988–95. Árið 1998 var hún ráðin sveitarstjóri Borgarfjarðarsveitar og gegndi því starfi til 2002. Eftir það starfaði hún hjá RÚV eða þar til hún lét af störfum sökum heilsubrests árið 2007.
Þórunn gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, var m.a. varaborgarfulltrúi í Reykjavík 1978–90, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna 1985–89, sat í stjórn Hvatar, auk þess sem hún sat m.a.í miðstjórn og flokksráði flokksins um skeið. Þá átti hún sæti í útvarpsráði 1995–2003, í stjórn Menningarsjóðs útvarpsstöðva, í Ferðamálaráði og í samvinnunefnd um miðhálendið. Þórunn gekk til liðs við Lionshreyfinguna árið 1984 og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum, m.a. var hún formaður og einn af stofnendum Eirar, auk þess sem hún var ritstjóri Lionsblaðsins, svæðisstjóri og fjölumdæmisstjóri.