Samþykkt

Hér á eftir fylgir samþykkt fyrir Ljósmyndasafnið Ísafirði, með áorðnum breytingum. Samþykktina má einnig sækja sem Word-skjal.

Samþykkt fyrir Ljósmyndasafnið Ísafirði

1.gr. 

Ljósmyndasafnið Ísafirði er í eigu Ísafjarðarbæjar. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fer með stjórn safnsins og gerir tillögur til bæjarstjórnar um stefnumörkun í málefnum þess og hefur eftirlit með að samþykktum og stefnu sé fylgt. Stjórn þess er að öðru leyti í höndum forstöðumanns safnsins. Rekstrarkostnaður safnsins greiðist úr bæjarsjóði í samræmi við fjárhagsáætlun ár hvert. Verði arður af starfsemi safnsins skal hann ganga til safnsins sjálfs.

2. gr. 

Ljósmyndasafnið starfar samkvæmt gildandi lögum um söfn, safnalög, lög um höfundarrétt, lög um flutning menningarverðmæta úr landi og siðareglum ICOM.

3. gr. 

Hlutverk safnsins er söfnun, varðveisla, skráning og miðlun ljósmynda. Ljósmyndasafnið skal varðveita ljósmyndir, glerplötur, filmur, skyggnur og stafrænar myndir safnsins með þeim hætti að almenningur hafi sem bestan aðgang að þeim í safninu eða á vefnum. Safnið skal fyrir hönd Ísafjarðarbæjar veita ráðgjöf um meðferð og varðveislu ljósmynda í eigu bæjarins.

4.  gr.

Ljósmyndasafnið skal kappkosta að safna ljósmyndum ísfirskra ljósmyndara, myndum úr héraðinu eða myndum sem tengjast héraðinu með einum eða öðrum hætti.

5. gr. 

Ljósmyndasafnið skal opið almenningi á auglýstum tímum. Það skal sinna kynningu á safnkostinum, m.a. með sýningahaldi, leiðsögn um safnið, fyrirlestrum, útgáfu mynda og kynningarrita eða með öðrum hætti sem henta þykir og fjárhagsáætlun safnsins leyfir hverju sinni. Safnið og starfsemin þess skal eftir því sem kostur er kynnt nemendum skóla í samráði við skólayfirvöld í Ísafjarðarbæ.

6. gr. 

Forstöðumaður er ráðinn af bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar. Hann ber ábyrgð á rekstri og stjórnsýslu safnsins, þar með talið fjármálum, stafsmannamálum og á framkvæmd ákvarðana bæjarráðs. Hann skipuleggur sýningar safnsins og sér um aðra faglega starfsemi þess þ.m.t. söfnun, varðveislu og skráningu.

7. gr. 

Forstöðumaður tekur ákvaðanir um gjafir sem safninu eru boðnar og metur hvort þær skuli þegnar. Safnið má ekki takast á hendur kvaðir um aðra meðferð einstakra gjafa en gilda almennt um meðferð safnskostsins, þó getur bæjarstjórn veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstök rök mæla með því.

8. gr. 

Verði safnið lagt niður skal safnkosti þess ráðstafað skv. ákvörðun Bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar að höfðu samráði við Menningarmálaráðuneytið og Safnaráð.