Afhenti gamlar ljósmyndir frá Páli Guðmundssyni

Á dögunum kom Magni Blöndal Pétursson og afhenti Ljósmyndasafni Ísafjarðar gamlar ljósmyndir og filmur úr búi Páls Guðmundssonar sem áður bjó á Túngötu 11, Ísafirði.

Páll fæddist 17. desember 1893 að Þorfinnsstöðum í Þverárhreppi, Vestur-Húnavatnssýslu, sonur hjónanna Ingibjargar Pálsdóttur og Guðmundar Árnasonar. Tvíburabróðir hans var Ingimundur Guðmundsson, síðar vélsmiður á Ísafirði. Páll ólst upp hjá foreldrum sínum í Saurbæ á Vatnsnesi en flutti til Ísafjarðar árið 1908 og bjó þar síðan. Ingimundur bróðir hans flutti einnig til Ísafjarðar og árið 1927, þegar Ingibjörg móðir þeirra var orðin ekkja, flutti hún til þeirra bræðra og hélt með þeim heimili í mörg ár. Árið 1930 reistu þeir húsið að Túngötu 11.

Páll lærði skósmíði hjá Þorbirni Tómassyni og hjá Ólafi J. Stefánssyni og stundaði lengi þá iðn. Þá fékkst hann um skeið við verzlunarstörf en árið 1934 var hann ráðinn innheimtumaður bæjarins og gegndi því starfi til 1954. Upp frá því vann hann ýmis skrifstofustörf, mest hjá bæjarfélaginu. Hann var fundarritari bæjarstjórnar frá ársbyrjun 1935 og fram til síðasta dags. Páll vann mikið á sviði félagsmála en hann var m. a. áhugasamur góðtemplari og tók á yngri árum mikinn þátt í félagslífi bæjarbúa, þar á meðal leikstarfsemi og störfum ungmennafélagsins Árvakurs.

Páll var ókvæntur. Hann lést 20. desember 1958.

Velja mynd