Janúar 2018

Pollurinn á Ísafirði frostaveturinn 1918
Árið 1918 byrjaði með fimbulkulda og mun janúar á því ári vera kaldasti mánuður á Íslandi á 20. öld. Mesta kuldakastið hófst í kringum 6. janúar og stóð tæpar þrjár vikur á Suðurlandi en lengur fyrir norðan. Á Ísafirði hafði verið suðvestanátt fyrstu daga ársins og lágu skip og bátar því á Prestabugtinni en vont lægi er á Pollinum í þeirri átt. Mótorskonnortan Hans, eign Leon. Tangs verslunar í Stykkishólmi, var meðal þeirra sem skipa sem þarna voru og í áhöfn hennar maður að nafni Friðrik Salómonsson en eftirfarandi frásögn er skráð eftir honum:
Svo er það eitt kvöld, að suðaustanáttin er lögð að og komið logn og mikill kuldi. Við skildum ekkert í hvurning á þessu gæti staðið og vorum að bollaleggja um það. Stýrimaðurinn, sem hét Einar Jónsson, sagði svona við okkur: „Ætli það sé ekki kominn ís". Skipstjórinn [Jón Pálsson] var í landi, hann fór á bæjarstjórnarfund, og ætlaði svo að koma morguninn eftir um borð í skipið. Þá tókum við eftir því að margir bátarnir settu í gang vélarnar og fóru inn á Pollinn. Skipstjórinn kom og sagði okkur að ísinn væri kominn inn undir Bolungarvík og við yrðum að fara inn á Poll, áður en hann kæmi. Við drógum upp akkerin og héldum af stað, þá var ísinn kominn inn undir Hnífsdal, við sáum þar í hvítt rekald, það voru engir stórir jakar, aðeins mulningur. Þegar við vorum tilbúnir að fara af Prestabugtinni, var seinasti báturinn kyrr. Við fórum til hans og þá var okkur sagt að vélin færi ekki í gang. Við biðum þar til hann var búinn að draga inn akkerin og drógum hann inn. Þá var ísinn alveg á eftir okkur, hann var kominn inn fyrir Norðurtangann. Svo löguðmst við inn á Pollinn og morguninn eftir var hann allur ísi lagður. Það var lagnaðarís. Hann var það sterkur að það mátti hlaupa hann. Við á Hans lögðum ekki í að fara neitt út á ísinn, en menn af hinum bátunum lögðu flatningsborð við skipshliðina, stigu ofan á það og hlupu svo. Þegar þeir hlupu kom sjór í sporinn. (Halldóra Gunnarsdóttir: „Vikuferð á heiðum og ísum. Friðrik Salómonsson, Flatey á Breiðafirði, segir frá ferðalagi frá Ísafirði til Stykkishólms í janúar 1919, kútter Hans, bernsku sinni í Stykkishólmi og ungum skáldum.“ Lesbók Morgunblaðsins 20. júlí 1969, 8-10).
Ísfirska bæjarblaðið Vestri segir svo frá þessari kuldatíð :