Um skjalasafnið
Héraðsskjalasafnið Ísafirði var stofnað 8. maí 1952. Það starfar samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn og reglugerð um héraðsskjalasöfn. Safnið er til húsa í Safnahúsinu á Eyrartúni, Ísafirði.
MEGINHLUTVERK skjalasafnsins er að taka við, varðveita og skrá skjöl afhendingarskyldra aðila á starfssvæði safnsins, þ.e. sveitarfélögin á norðanverðum Vestfjörðum, sem og allar stofnanir á þeirra vegum. Þá ber skjalasafninu að annast eftirlit og ráðgjöf varðandi skjalavörslu afhendingarskyldra aðila á starfssvæði sínu samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn og reglugerðum sem ráðherra setur á grundvelli þeirra og varða skjalavörslu. Skjalasafnið tekur einnig við og varðveitir skjöl einstaklinga, félaga og fyrirtækja er hafa sögulegt gildi fyrir starfssvæði safnsins. Má þar nefna bréf, dagbækur og ljósmyndir frá einstaklingum og gjörðabækur, stofnskrár og önnur gögn frá félagasamtökum. Slík gögn innihalda oft upplýsingar sem ekki er að finna í skjalasöfnum opinberra aðila en geta varpað ljósi á sögu og menningu samfélags liðins tíma.
Skjalasafninu ber að veita aðgengi að safnkosti í samræmi við lög. Um aðgengi að skjölum gilda lög um opinber skjalasöfn nr. 77/2014, upplýsingalög nr. 140/2012, stjórnsýslulög nr. 37/1993, lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Markvisst er unnið að því að gera safnkostinn aðgengilegan almenningi, t.d. með stafrænni miðlun.
SAFNKOSTUR. Skráð skjöl og frágengin að fullu eru um 170 hillumetrar. Frágengin skjöl með afhendingaskrá eru um 360 hillumetrar og ófrágengin skjöl um 300 hillumetrar. Skjöl sem bíða afhendingar eru áætluð nálægt 100 hillumetrum. Safnið geymir einnig örfilmur (mikrófilmur) af handritum, kirkjubókum, manntölum, dómabókum o.fl., samtals um 1700 spólur.