Sagan
Héraðsskjalasafn Ísafjarðarsýslu og Ísafjarðarkaupstaðar heyrði undir sýslunefndir Norður- og Vestur- Ísafjarðarsýslu og var sama stjórn yfir héraðsskjalasafninu og héraðsbókasafninu skv. ákvörðun sýslunefnda og bæjarstjórnar Ísafjarðarkaupstaðar 1952 og 1975. Tilgangurinn með stofnun héraðsskjalasafnsins var að safna, varðveita og bjarga frá glötun bækur og skjöl sem vörðuðu Ísafjarðarkaupstað og báðar Ísafjarðarsýslur. Skyldi héraðsskjalasafnið geyma gögn þessara aðila, að svo miklu leyti sem ekki bæri að afhenda þau til Þjóðskjalasafns. Voru þetta skjalasöfn bæjarstjórnar Ísafjarðarkaupstaðar, hreppstjóra, hreppsnefnda, sýslunefnda, skólanefnda, sóknarnefnda, ræktunarsambanda, búnaðarfélaga o.s.frv. Jóhann Gunnar Ólafsson (1902–1979), sýslumaður Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði í 25 ár, átti drýgstan þátt í stofnun héraðsskjalasafnins. Voru bækur og skjöl Sléttuhrepps með fyrstu afhendingum til safnsins, afhentar af sýslumanni eftir að síðustu íbúarnir yfirgáfu hreppinn haustið 1952.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögunum, sem samþykkt voru á Alþingi vorið 1986, voru sýslunefndir lagðar niður en héraðsnefndir myndaðar í þeirra stað. Héraðsnefnd Ísafjarðarsýslu var stofnuð á Ísafirði 26. apríl 1989 með þátttöku allra sveitarfélaga í Vestur- og Norður-Ísafjarðarsýslu, utan Ísafjarðarkaupstaðar og Bolungarvíkurkaupstaður sem gerðust aðilar að árið 1991. Nefndin var lögð niður í lok maí 1996 þegar sveitarfélagið Ísafjarðarbær varð til með sameiningu sex sveitarfélaga, þau voru: Flateyrarhreppur, Suðureyrarhreppur, Þingeyrarhreppur, Mosvallahreppur, Mýrahreppur og Ísafjarðarkaup staður. Eftir sameininguna 1996 voru þrjú sveitarfélög á norðanverðum Vestfjörðum í stað 16 hreppa þegar skjalasafnið var stofnað. Fjöldi íbúa á starfssvæði skjalasafnsins var 5.005 þann 1. janúar 2024.