Sagan

E+JMeð erfðaskrá dags. 13. ágúst 1958, ákvað Elín Sigríður Halldórsdóttir, Fjarðarstræti 11 á Ísafirði, að af eftirlátnum eignum hennar skyldi stofna sjóð sem bæri nafnið Minningarsjóður Jóns Þorkels Ólafssonar, trésmíðameistara og Rögnvalds Ólafssonar, húsameistara. Skyldi markmið sjóðsins vera að efla menningarmál í Ísafjarðarkaupstað, svo sem kirkjumál og það sem lyti að listrænni fegrun Ísafjarðarkaupstaðar.

Stjórn sjóðsins skyldi skipuð bæjarfógeta, sóknarpresti, bæjarstjóra og Guðmundi G. Kristjánssyni, skrifstofustjóra. Bæjarfógeti skyldi vera reikningshaldari sjóðsins. Elín Sigríður lést 15. febrúar 1962 og kom stjórn sjóðsins saman 12. febrúar 1963 og setti honum skipulagsskrá, sem síðar var staðfest af forseta Íslands. 

Málverk sem sýnir sjónarhorn inn með Engidal í Skutulsfirði.

Í skránni var kveðið á um að höfuðverkefni sjóðsins yrði að koma á fót Listasafni Ísafjarðar með kaupum á listaverkum, málverkum og höggmyndum, samkvæmt ákvörðun sjóðsstjórnarinnar. Stjórnin samþykkti á stofnfundinum að fara þess á leit við bæjarstjórn að listasafnið fengi til afnota hluta af þakhæð sundhallarbyggingarinnar við Austurveg á Ísafirði. Byggðasafn Vestfjarða var þar fyrir í hluta rýmisins. Á stofndegi Listasafns Ísafjarðar ákvað stjórn Byggðasafns Vestfjarða að gefa safninu fyrsta verkið, málverk af Skutulsfirði eftir ísfirska listamanninn Kristján Helga Magnússon. Fyrstu verkin sem stjórn safnsins keypti voru tvö olíumálverk, önnur lítil mynd af sjávarhömrum eftir Þórarinn B. Þorláksson og hitt mynd frá Þingvöllum eftir Jóhannes Kjarval, keyptar á uppboði 4. nóvember 1965. Fyrsta sýningin sem haldin var á vegum safnsins var á aldarafmæli Ísafjarðarkaupstaðar sumarið 1966. 

Árið 1974 var Jóhann Hinriksson ráðinn forstöðumaður Bókasafns Ísafjarðar, sem þá var staðsett á annarri hæð sundhallarinnar við Austurveg. Safneign Listasafns Ísafjarðar var geymd uppi á lofti á þriðju hæð og tók Jóhann að sér að gera skrá yfir safnkostinn. Undir hans forystu stóð bókasafnið fyrir fjölbreyttum myndlistarsýningum þar sem sýnendur voru oft ungir listamenn auk þess sem efnt var til sýninga á verkum í eigu Listasafns Íslands og Listasafni ASÍ. 

Árið 1984 var í fyrsta sinn ráðinn starfsmaður við Listasafn Ísafjarðar. Jón Sigurpálsson tók þá við starfi safnvarðar hjá bæði Byggðasafni Vestfjarða og Listasafni Ísafjarðar þar sem hann skyldi hafa umsjón með safnkosti, veita ráðgjöf við kaup á nýjum listaverkum og setja upp sýningar á vegum safnsins. 

Fyrsta sýningin sem Jón Sigurpálsson stóð fyrir sem forstöðumaður Listasafns Ísafjarðar var haldin á Hótel Ísafrði árið 1985 þar sem sýnd voru verk eftir ísfirska listamanninn Jón Hróbjartsson. Það sama ár keypti Jón skúlptúr af Ingólf Arnassyni listamanni og var það fyrsta nýlistarverkið sem safnið eignaðist. Árið 1986 voru settar upp tvær sýningar í tilefni af 200 ára afmæli Ísafjarðarkaupstaðar. Var um að ræða sýningar á verkum tveggja ísfirskra listamanna, þeirra Kristjáns Helga Magnússonar og Jón Hróbjartssonar. Hefur það síðan verið stefna listasafnsins að eignast verk eftir báða þessa listamenn. 

Jón Sigurpálsson stóð fyrir sýningum úr safneign í hinum ýmsu sölum bæjarins. Markmiðið var að setja upp eina eða tvær sýningar á ári en sýningarhald var annmörkum háð þar sem hvorki fjármagni né sýningarými var til að dreifa. 

Árið 1987 ákvað bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar að gamla sjúkrahúsið á Ísafirði yrði gert að safnahúsi þegar það lyki hlutverki sínu sem sjúkrahús. Skyldi það hýsa Bókasafn Ísafjarðar, Héraðsskjalasafnið og Listasafn Ísafjarðar. Markaði þessi ákvörðun tímamót í sögu Listasafnsins sem fram til þessa hafði ekki haft þak yfir höfuðið ef undan er skilin geymsluaðstaða í Sundhöllinni. 

Safnahúsið var opnað formlega við hátíðlega athöfn þann 17. júní 2003. Í sýningarsal Listasafns Ísafjarðar á 2. hæð hússins var opnunarsýning á verkum Kristjáns H. Magnússonar og optiklistakonunnar Eyborgu Guðmundsdóttur. Bárust safninu ýmsar gjafir á þessum tímamótum. 

Árið 2010 voru gerðar breytingar á skipuriti menningarmála í sveitarfélaginu og í kjölfarið settur forstöðumaður sem var yfirmaður allra safnanna innan Safnahússins. Jón Sigurpálsson lét þá af störfum sem forstöðumaður listasafnins og færðust verkefni þess í hendur Jónu Símoníu Bjarnadóttur, sem þá var forstöðumaður Safnahússins. Árið 2021 var ákveðið að auglýsa eftir sérfræðingi í 35% starfshlutfall hjá Listasafni Ísafjarðar. Í kjölfarið var Kristín Þóra Guðbjartsdóttir ráðin til safnsins en hún lét af starfi í árslok 2021 og var Rannveig Jónsdóttir þá ráðin til safnsins. 

Á árinu 2024 samþykkt Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra að leggja niður Minningarsjóð Jóns Þorkels Ólafssonar og Rögnvalds Ólafssonar, sem stóð að baki Listasafni Ísafjarðar, enda safnið í raun og veru rekið af sveitarfélaginu. Með því færðust allar eignir sjóðsins til sveitarfélagsins, listaverk og óverulegir fjármunir.