Menning við ysta haf - Útgáfufögnuður
Í tilefni útgáfu bókarinnar Menning við ysta haf: Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða og Stranda verður blásið til útgáfufögnuðar á Ísafirði. Dagskráin fer fram í Safnahúsinu við Eyrartún á Ísafirði frá kl. 15 til 16:30 laugardaginn 7. október og í Edinborgarhúsinu frá kl. 20:00 til 22:30 sama dag.
Bókin hefur að geyma greinar um vestfirskar bókmenntir og menningu frá miðöldum fram á okkar daga. Greinarhöfundar eru fræðimenn og rithöfundar frá Íslandi, Kanada og Danmörku, og ritstjórar bókarinnar eru Birna Bjarnadóttir, rannsóknasérfræðingur við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, og Ingi Björn Guðnason, bókmenntafræðingur og staðarhaldari á Hrafnseyri. Bókin er tileinkuð minningu Eiríks Guðmundssonar (1969 - 2022). Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag.
DAGSKRÁ:
Kl. 15:00 - 16:30 Safnahúsið Ísafirði
Útgáfufögnuður bókarinnar Menning við ysta haf og opnun sýningarinnar “Úr kúltíveruðum kindarhausnum: Sýning bóka frá Vestfjörðum og Ströndum.”
Ingi Björn Guðnason flytur ávarp f.h. ritstjóra.
Eiríkur Örn Norðdahl opnar sýninguna.
Ármann Jakobsson, forseti Hins íslenska bókmenntafélags flytur ávarp f.h. útgefanda
Greinarhöfundarnir Andrew McGillivray, Birna Bjarnadóttir, Gunnar Þorri Pétursson og Oddný Eir Ævarsdóttir segja frá greinum sínum í bókinni.
Kl. 20:00 - 22:30 Edinborgarhúsinu Ísafirði
Kvöldvaka sköpunarkraftsins.
Við fögnum sköpunarkrafti Vestfjarða og Stranda með kvöldvöku í Edinborgarhúsinu. Fram koma starfandi rithöfundar og tónlistarmenn sem flytja verk sín. Nýtt efni í bland við gamalt. Ókeypis aðgangur og öll velkomin!
Fram koma:
Eiríkur Örn Norðdahl
Gosi
Helen Cova
Hermann Stefánsson
Jaros?aw Czechowicz
Skúli mennski
Oddný Eir Ævarsdóttir
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
Um bókina Menning við ysta haf: Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða og Stranda.
Þegar spáð er í íslenska bókmennta- og menningarsögu má sjá hvernig mörg merkisverk íslenskra bókmennta eiga rætur sínar að rekja til Vestfjarða og Stranda. Markmiðið með útgáfunni á greinasafninu er að skapa samræðu um þetta efni og kortleggja um leið þó ekki væri nema brot af þeim handritum og bókmenntaverkum sem rísa úr djúpinu frá miðöldum til okkar tíma. Útgáfan er lokahluti verkefnisins Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða (2017–2021) og byggir að hluta á erindum sem flutt voru á Hrafnseyri (sumarið 2017) og tveimur málþingum á Ísafirði, (2018 í Edinborgarhúsinu og 2021 í Safnahúsinu).
Greinarhöfundar eru fræðimenn og rithöfundar frá Íslandi, Kanada og Danmörku, og ritstjórar bókarinnar eru Birna Bjarnadóttir, rannsóknasérfræðingur við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, og Ingi Björn Guðnason, bókmenntafræðingur og staðarhaldari á Hrafnseyri.
Um sýninguna “Úr kúltíveruðum kindarhausnum: Sýning bóka frá Vestfjörðum og Ströndum”
Raunverulegt bókmenntaverk þekkir engin landamæri – það talar til allra sem það lesa, hvar sem þá má finna. Engu að síður erum við gjörn á að flokka slík verk og raða þeim upp í kerfi, og eigum jafnvel okkar uppáhalds – hver elskar ekki rússneskar skáldsögur? Franskar sonnettur og japanskar hækur? Hver elskar ekki Íslendingasögur? En ef verkin eru eru úniversal og höfundarnir með jafn flóknar og margbrotnar rætur og við flest hvað er það þá sem stýrir ætterni þeirra? Nánar tiltekið, hvernig verður bók „raunverulega“ vestfirsk? Þarf hún að hafa verið skrifuð á svæðinu af höfundi sem er þar fæddur og hefur aldrei búið annars staðar? Þarf hún að gerast á Vestfjörðum? Má einhver hluti hennar gerast annars staðar? Og ef skilgreiningin er frjálslegri en svo, dugir þá til að einu orði sé vikið að litlu skeri í Breiðafirðinum – eða togara á Vestfjarðamiðum? Að höfundurinn hafi átt langömmu í Fljótavík? Eru kannski allir höfundar sem hafa komið til Vestfjarða, eða uppljómast þar, höfundar vestfirskra bóka? Nei, auðvitað ekki. Það hvar eigi að draga þessar línur verður alltaf huglægt mat og valið sem síðan fer fram skilgreinist af sýn – og blindum blettum – þeirra sem að því standa. Hér stendur ekki til að búa til tæmandi lista yfir vestfirskar bókmenntir – það væri enda hartnær ómögulegt viðfangs – og við svona verk yfirsést manni því miður iðulega alltaf eitthvað sem manni átti alls ekki að yfirsjást. Við því er ekkert að gera, landslag vestfirskra bókmennta er gríðarstórt og óljóst og yfirsjónin er fólgin í eðli verksins. Það er engu að síður hógvær von þeirra sem að sýningunni standa að hún sýni að einhverju leyti þá breidd og það ríkidæmi sem vestfirskar bókmenntir búa yfir í sögulegu tilliti og fram til dagsins í dag.