Febrúar 2015

BOLLUDAGUR

Bolludagur er mánudagurinn í föstuinngangi, 7 vikum fyrir páska, en föstuinngangur kallast síðustu þrír dagarnir fyrirlönguföstu, sem hefst á miðvikudegi með öskudegi. Flengingar og bolluát berst líklega til Íslands fyrir dönsk eða norsk áhrif á síðari hluta 19. aldar, líklega að frumkvæði þarlendra bakara sem settust hér að. Heitið Bolludagur er ekki þekkt fyrr en eftir aldamót og mun orðið til hérlendis. Upphaflega bárust siðirnir að slá köttinn úr tunnunni og að marsera í grímubúningum frá Danmörku fyrir 1870 en lagðist víðast hvar af eftir aldamótin. Þessir siðir héldust samt áfram á Akureyri en 1915 færðust þeir yfir á öskudaginn og hafa síðan smámsaman breiðst þaðan út aftur sem öskudagssiðir.

Heitið bolludagur sést fyrst á prenti 1910 en annars var dagurinn oft kallaður flengingardagur. Sá siður að vekja menn með flengingum á bolludaginn er talinn hafa borist til Danmerkur frá mótmælendasvæðunum í norðanverðu Þýskalandi og síðan til Íslands með dönskum kaupmönnum á 19. öld. Í upphafi taldist flenging ekki gild nema flengjarinn væri alveg klæddur og fórnarlambið óklætt, og því ekki óalgengt að börn vöknuðu snemma til að geta „bollað“ foreldra sína í rúminu. Sá sem er flengdur getur losnað undan þjáningunum með því að gefa bollu í staðinn, og fyrir hvert högg átti barnið að fá eina bollu. (Heimild: http://is.wikipedia.org/wiki/Bolludagur)

Ljósmyndin kemur úr albúmi sem tilheyrði Sigríði J. Guðmundsdóttur ljósmyndara en hún vann á ljósmyndastofu Simson. Albúmið var í dánarbúi Hinriks Guðmundssonar, skipstjóra á Ísafirði, og var afhent Ljósmyndasafni Ísafjarðar í apríl 2014.