Janúar 2020

OFSAVEÐUR Á ÍSAFIRÐI UM MIÐJAN MAÍ 1945

Ofsaveður með fádæma fannfergi gekk yfir Vesturland og Norðvesturland dagana 14.-16. maí 1945. Verst var veðrið við Ísafjarðardjúp og á Ströndum en olli minna tjóni en hefði mátt ætla. Þau tíðindi urðu einnig að veðurfregnum var útvarpað í fyrsta sinn þann 14. maí en veðurfregnabann hafði verið frá 15. apríl 1940 þegar Ísland varð herstöð. Urðu margir fegnir þessu, ekki síst þeir menn til sjávar og sveita sem áttu atvinnu sína og afkomu undir veðráttunni komna að meira eða minna leyti.

Ísfirska bæjarblaðið Skutull sagði frá þessu vonskuveðri undir fyrirsögninni „Hverju reiddust goðin?“:

Það var engu líkara en veðurguðirnir styggðust við, þegar Jón Eyþórsson fór að láta veðurstofuna þylja veðurfregnir í útvarpið á ný. Síðastliðinn sunnudag tók veður að spillast, en mánudaginn 14. og þriðjudaginn hinn 15. maí var hér á Ísafirði slík snjókoma með ofsa stormi á norðan, að sjaldgœfir eru öllu snarpari byljir um hávetur. Bærinn var bókstaflega á kafi í snjó er veðrinu slotaði. – Mjög víða lágu skaflarnir upp fyrir dyr og glugga neðri hæðar húsanna, og sumstaðar varð fólk að fá utanaðkomandi aðstoð til að komast út úr húsum sínum. Göturnar voru lítt færar, því að hrikaháir snjóhryggir lágu um þær þverar með djúpum dældum á milli. Minnast elztu menn ekki slíkrar fannkyngi á götum bæjarins síðan snjóflóðaveturinn mikla 1910, en enginn minnist slíkrar fádæma snjókomu í nokkru sumarmála eða páskahreti, hvað þá heldur, þegar komið er fram í fimmtu viku sumars. Í grennd við bæinn og á nokkrum bæjum inni í Djúpi fennti fé í áhlaupi þessu. Bátar skemmdust bæði hér og í Bolungavík. Einnig rak vélbátinn Ástu á Hesteyri á land og eru meiri líkur til að hann sé ónýtur. Vélbátinn Elosa, eign Bjarna Eiríkssonar í Bolungavík, rak á land í ofviðrinu, og brotnaði hann mikið. – Nánari fregnir um tjón af völdum þessa áhlaupsveðurs eiga sjálfsagt eftir að berast, en þó er útlit fyrir, að það hafi jafnvel orðið minna, en búast hefði mátt við. Það hefir sjálfsagt kostað bæjarfélagið upp undir tíu þúsund krónur að láta moka göturnar, til þess að gera þær umferðarhæfar gangandi fólki. – Bílfært verður ekki almennt um bæinn fyr en eftir nokkra daga, og byggingavinna, sem hafin var, hefir stöðvast í bili. Þetta er vissulega annálsverð snjókoma að sumri til, og því var talið sjálfsagt að geta hennar nánar en venjulega er gert um skin og skúrir. Þetta aftakaveður mun ekki hafa geisað annarstaðar á landinu en á Vestfjörðum. Þó mun nokkuð hafa snjóað víða norðanlands. En Vestfirðingar eru hryðjum og harðviðrum vanir og vænta nú blíðrar sumartíðar. (Skutull 19. maí 1945, 1.)

Ljósmynd úr safni Arnþrúðar Aspelund.