
Ráðstefnan "Hvernig grannar erum við?"
Ráðstefnan "Hvernig grannar erum við?" fór fram í Edinborgarhúsinu í júní en þar var rætt um samband Íslands og Grænlands í nútíð og fortíð. Þá var opnuð sýning í Safnahúsinu um komu Grænlendinga til Ísafjarðar árið 1925.
Þann 16. júní síðastliðinn fór fram ráðstefnan "Hvernig grannar erum við ?" í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Ráðstefnan var samvinnuverkefni Safnahúsins, Byggðasafns Vestfjarða, Prófessorsembættis Jóns Sigurðssonar og Námsleiðar í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Alls voru 8 aðilar með erindi sem bæði voru frá Grænlandi og Íslandi en ráðstefnunni lauk með pallborðsumræðum þar sem málefni landanna voru rædd. Í lok dags var boðið upp á kajakferð á Pollinum til að minnast kajaksýningar grænlensku gestanna á Ísafirði árið 1925. Deginum áður var sýning um þá heimsókn opnuð í Safnahúsinu en við það tækifæri hittust meðal annars afkomandi Simsons ljósmyndara, Una Þóra Magnúsdóttir, sem tók flestar þeirra mynda sem prýða sýninguna og afkomandi eins grænlensku gestanna, Erik Gant.