Gjöf Sigurðar Atla Sigurðssonar
Sigurður Atli Sigurðsson færði safninu að gjöf verk af einkasýningu sinni Allt mögulegt, sem lauk 18. janúar síðastliðinn.
Sigurður Atli Sigurðsson færði safninu að gjöf verk af einkasýningu sinni Allt mögulegt, sem lauk 18. janúar síðastliðinn. Verkið er skráð númer 7 á sýningunni, en alls voru níu málverk til sýnis. Verkin á sýningunni voru unnin með UV-bleksprautuprenti og silkiþrykki í bland við olíumálningu og olíupastel. Þau standa á mörkum prentverks og málverks, raunveruleikans og hins ímyndaða.Við þökkum Sigurði Atla hjartanlega fyrir gjöfina, sem er mikill fengur fyrir safnið.
"Ég er mjög upptekinn af því hvernig litir og form birtast okkur í öllu sem við sjáum. Ég get ímyndað mér að ungabörn sjái heiminn á áhugaverðan hátt sem flæði af litum, formum og áferðum. Þegar við eldumst mótum við okkur hugmyndir um hvernig hlutir eigi að líta út. Fyrir þessa sýningu langaði mig að gera verk sem byggja á raunverulegum hlutum eins og þeir birtast okkur. Þetta eru þannig séð frekar ómerkilegir hlutir; byggingavörur, aukahlutir í raftæki, eldhúsáhöld o.s.frv. sem mynda símynstur. Frá vissum sjónarhornum geta þessir hversdagslegu aukahlutir leitt hugann í óravíddir."
Sigurður Atli Sigurðsson (f.1988) er þekktur fyrir formhrein verk sem skoða þau mynstur sem móta mannleg samskipti. Verk hans taka á sig form stórra myndaraða og innsetninga sem taka yfir sýningarrýmið. Á ferli sínum hefur Sigurður Atli unnið með ýmsar grafískar prentaðferðir og fengist við útgáfu bókverka. Árið 2015 stofnaði hann Prent & vini ásamt Leifi Ými, saman hafa þeir unnið með fjölda listamanna að prent- og bókverkum. Um svipað leyti hóf Sigurður Atli að kenna við Listaháskóla Íslands og sá um grafíkverkstæði skólans um nokkurra ára skeið. Sérþekking hans á þessu sviði hefur leitt hann til að halda sýningar og stýra sýningum víða um heim, nýlega á Museum of Contemporary Art Tokyo, Listasafninu á Akureyri og Listasafni Íslands.