Bókakynning: Utangarðs

Fimmtudaginn 8.október kl 17:00 kynnir Sigríður Hjördís Jörundsdóttir bókina „Utangarðs: ferðalag til fortíðar” sem kemur út í þessum mánuði. Bókina skrifaði Sigríður Hjördís ásamt Halldóru Kristinsdóttur og er viðfangsefnið einstaklingar á 19.öld sem af einhverjum ástæðum féllu ekki inn samfélag samtímans.

Fimmtudaginn 8.október kl 17:00 kynnir Sigríður Hjördís Jörundsdóttir bókina „Utangarðs: ferðalag til fortíðar” sem kemur út í þessum mánuði. Bókina skrifaði Sigríður Hjördís ásamt Halldóru Kristinsdóttur og er viðfangsefnið einstaklingar á 19.öld sem af einhverjum ástæðum féllu ekki inn samfélag samtímans. 

Stutt kynning á bókinni:
Alþýðu manna var þröngur stakkur skorinn í sveitasamfélaginu á Íslandi fyrr á tíð. Þeir sem voru „öðruvísi“ — til dæmis bókabéusar og þeir sem hneigðust til lista, fatlað fólk og veikt eða þeir sem höfðu misst fótanna í lífinu — lentu gjarnan utangarðs og áttu ógóða ævi.

Í þessari fróðlegu og skemmtilegu bók er sagt frá utangarðsfólki og förufólki á Vesturlandi og Vestfjörðum frá síðari hluta 18. aldar og fram á fyrstu ár 20. aldar. Saga einstaklinganna er rakin og dregin fram skjöl og handrit sem tengjast þeim. Slóð utangarðsfólks leynist ótrúlega víða þegar betur er að gáð — og fjöldi þess kemur á óvart.

Guðmundur Guðmundsson (1799–1885)
Guðmundur læknir, Guðmundur norðlenski
Guðmundur var að norðan. Þar var hann dæmdur fyrir þjófnað og þvældist um landið í kjölfar þess en 1833 var hann kominn að Kvígindisfelli í Tálknafirði. Eftir það var hann búsettur víða í Dýrafirði. Guðmundur hafði hæfileika til að lækna fólk og var vinsæll skottulæknir. Kvennamál hans voru æði skrautleg.

Álfur Magnússon (1871–1898)
Álfur var frá Suðurnesjum. Hann þótti hæfileikaríkur og þrátt fyrir að vera aðeins sonur tómthúsmanns komst hann í Lærða skólann. Hann flosnaði upp úr námi og var drykkfelldur og rótlaus. 1889 var Álfur kominn á Ísafjörð og átti hann eftir að dvelja þar og í Önundarfirði. Miklar sögur spunnust um hvarf hans árið 1898. Sagt var að hann hefði kastað sér fyrir borð af skipi en 34 árum síðar komust á kreik sögur um að til hans hefði sést í útlöndum. 

Þuríður Hákonardóttir (f. 1828)
Í manntali 1835 var Þuríður skráð sem niðursetningur í Austmannsdal. Æska hennar mun hafa verið harla ömurleg og eru hræðilegar sögur til af því hvernig komið var fram við hana. Hún þótti einkennileg og skapstór. Þvældist hún um, skemmti fólki með rímnakveðskap og vildi fá greitt fyrir í tóbaki. Hún endaði ævina sem einseturkona á Ísafirði.

Velja mynd