
150 ÁRA KAUPSTAÐARAFMÆLI
Í dag, 26. janúar, eru liðin 150 ár frá því að Ísafjörður fékk kaupstaðarréttindi. Þann dag árið 1866 var gefin út og staðfest, af Kristjáni konungi hinum níunda, reglugerð um að gera Ísafjörð að kaupstað og um stjórn bæjarmálefna. Sama dag var og gefið út „Opið bréf um að stofna byggingarnefnd á kaupstaðnum Ísafirði". Kosningar til bæjarstjórnar fóru fram mánudaginn 16. júlí í húsi Jóns Vedhólms gestgjafa og voru þá kosnir fimm bæjarfulltrúar til þess að stjórna málefnum kaupstaðarins ásamt bæjarfógeta, sem var sjálfkjörinn samkvæmt reglugerðinni.
Íbúar kaupstaðarins voru 220 og í þessum fyrstu kosningum til bæjarstjórnar var 21 kjósandi á kjörskrá sem allir voru kjörgengir til bæjarstjórnar. Úrslit kosninganna urðu þau að kjörnir voru: Brynjólfur Oddsson bókbindari með 15 atkvæðum, Þorvaldur Jónsson héraðslæknir með 15 atkvæðum, Lárus Á. Snorrason verslunarfulltrúi með 14 atkvæðum, William T. Thostrup verslunarfulltrúi með 13 atkvæðum og Guðbjartur Jónsson skipherra með 8 atkvæðum. Fyrsti fundur bæjarstjórnar var svo haldinn 24. ágúst 1866.
Um það leyti sem kosið var til fyrstu bæjarstjórnar Ísafjarðarkaupstaðar kom Sigfús Eymundsson ljósmyndari til Ísafjarðar. Var hann í sinni fyrstu myndatökuferð, nýkominn frá Danmörku og Noregi þar sem hann hafði lært bókband og ljósmyndun. Sigfúsi var vel tekið á Ísafirði og hafði nóg að starfa þann stutta tíma sem hann dvaldi þar eða eins og kemur fram í bréfi sem hann skrifaði Jóni Sigurðssyni í Kaupmannahöfn: „Jeg hef hér mikið að gjöra svo jeg má vaka Nótt og Dag ma seiga.“ Um fimmtíu mannamyndir frá Ísafirði hafa varðveist frá þessum tíma svo vitað sé en auk þess nokkrar umhverfis- og hópmyndir. Þar á meðal er mynd af hinum nýfædda kaupstað á Skutulsfjarðareyri.