Prjónum með vinabænum Kaufering

í tilefni af heimsókn gesta frá vinabænum okkar Kaufering ætlum við að efna til sameiginlegs verkefnis - við ætlum að prjóna teppi með íbúum Kaufering. Hægt verður að koma í Safnahúsið til að prjóna / hekla.

Fulltrúar þýska vinabæjarins okkar munu heiðra okkur með nærveru sinni á afmælishátíð kaupstaðarins í sumar. Af því tilefni langar okkur og vinum okkar í Kaufering að efna til samstarfs um að prjóna / hekla teppi. Verkefnið fellst í að prjóna eða hekla ferninga (10x10 sm) úr ullargarni sem við svo saumum saman. Það ræðst svo af fjölda ferninga hvað teppin verða mörg. 

Safnahúsið leggur sitt af mörkum og við bjóðum fólki að koma til okkar og prjóna eða hekla. Í dagstofunni á 2. hæð er að finna körfu með ullargarni, prjónum, heklunálum og málbandi. Og svo tökum við líka á móti þeim ferningum sem verða til heima.  Best er að nota ullargarn sem hægt er að þvo í vél og allir litir eru gjaldgengir!

Velja mynd