UNGUR TEMUR GAMALL NEMUR - fyrirlestur

Sýningunni UNGUR TEMUR GAMALL NEMUR í Gallerí Úthverfu á Ísafirði fer senn að ljúka og þriðjudaginn 24. ágúst kl. 16 heldur sýningarstjórinn Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) fyrirlestur um sýninguna og rannsóknir henni tengdar í sal Listasafns Ísafjarðar í Safnahúsinu Eyrartúni.

UNGUR TEMUR GAMALL NEMUR er sex vikna verkefni í sýningarrými og listaverkabókabúð Úthverfu í miðbæ Ísafjarðar þar sem fjallað er um uppruna myndlistar á Ísafirði og sagan rakin með myndum, texta, spjalli, viðtölum, málþingum og kynningum. Fjallað er sérstaklega um feril Kristjáns H. Magnússonar (1903–1937) listmálara sem lærði „hagnýta grafíklist“ í Ameríku og fyrsta teiknikennarann hans Guðmund Jónsson frá Mosdal (1886–1956).

Sýningin lifandi sýningarvettvangur sem gefur innsýn í sögu myndlistar á Ísafirði eins og hún birtist hjá listamönnunum tveimur og spyr jafnframt spurninga og leitar svara. Lögð er áhersla á samtal sýningargesta og þátttakenda/sýningarstjóra. Kynntir hafa verið til sögunnar sjö ungir hönnuðir með tengingu við staðinn og verk þeirra sýnd. Þátttakendur eru:

 

Einar Viðar Guðmundsson Thoroddsen (1995)

Elísabet Sóldís Þorsteinsdóttir (1999)

Fannar Már Skarphéðinsson (1994)

Jónbjörn Finnbogason (1990)

Margrét Lóa Stefánsdóttir (1997)

Marsibil Sól Þórarinsdóttir Blöndal (1999)

Una María Magnúsdóttir (1998)

 

Sýningunni í Úthverfu lýkur formlega miðvikudaginn 25. ágúst 2021 en verk ungu hönnuðanna sjö verða áfram til sýnis í listaverkabókabúð Úthverfu fram til 25. september.

Á sýningartímanum hefur verið leitað dæma úr myndlistarsögu svæðisins og kastljósinu varpað á mikilvægi þess að börn og unglingar fái tækifæri til að tjá sig myndrænt með leiðsögn hæfra kennara. Verkefnið hefur jafntramt teygt anga sína út fyrir sýningarrýmið þar sem það á við.

Sýningarstjórinn Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur) er rannsóknarprófessor í grafískri hönnun og sýningin tengist rannsóknarverkefni hans sem fjallar um myndmál í prentsögu Íslands 1844–1944. Sýningarstjórinn hefur verið á staðnum allan sýningartímann og aflað frekara efnis og upplýsinga sem tengjast verkefninu.

Að sýningunni lokinni verður efni sýningarinnar og það sem safnast hefur á sýningartímanum tekið saman og gefið út á prenti.

Verkefnið er styrkt af Myndlistarsjóði og Ísafjarðarbæ.

Nánari upplýsingar gefur Elísabet Gunnarsdóttir s. 868 1845 – galleryoutvert@gmail.com

 

Velja mynd