Nýtt vinabæjarteppi lítur dagsins ljós
Fyrir nokkru var efnt til samstarfs af hálfu Kaufering, sem er vinabær Ísafjarðarbæjar í Þýskalandi um að útbúa og skiptast á ullarteppum úr hekluðum og prjónuðum ferningum
Fyrir nokkru var efnt til samstarfs af hálfu Kaufering, sem er vinabær Ísafjarðarbæjar í Þýskalandi um að útbúa og skiptast á ullarteppum úr hekluðum og prjónuðum ferningum eða „dúllum" eins og þeir eru gjarnan kallaðir. Þessi vinabæjarteppi færu svo t.a.m. á hjúkrunarheimili, bókasöfn og í skóla, þar sem þeirra væri þörf. Safnahúsið hefur tekið þátt í verkefninu með því að bjóða fram garn og áhöld þannig að áhugasamir gestir hússins gætu lagt verkefninu lið. Einnig hefur verið tekið á móti ferningum frá þeim sem hafa frekar viljað hekla eða prjóna heima hjá sér.
Nú þegar hefur þó nokkurt magn af dúllum litið dagsins ljós og nokkur teppi verið saumuð saman og afhent. Á afmælishátíð bæjarins sl. sumar mætti hópur á vegum Kaufering-bæjar og var setið saman eitt síðdegið við frágang á teppum. Kvennakór Ísafjarðar hafði einnig eitt teppi meðferðis sl. haust þegar kórinn hélt utan í tónleikaferðalag og söng fyrir íbúa Kaufering. Vaskar konur á föndurdeild Hlífar tóku nú í vetur að sér frágang á einu teppi. Var það afhent í gær og fer það von bráðar til Kaufering.
Viljum við færa hannyrðakonunum á Hlíf sem og öðrum sem hafa tekið þátt bestu þakkir fyrir vinnuframlagið. Enn eru þó til dúllur sem duga í nokkur teppi til viðbótar og við hvetjum því hannyrðafólk sem vantar verkefni til að hafa samband við okkur með því að senda póst á jona@isafjordur.is