Sýningaropnun

70 harmonikur og nokkrum betur úr safni Ásgeirs S. Sigurðssonar er yfirskrift sumarsýningar Byggðasafns Vestfjarða og Safnahússins. Sýningin verður opnuð fimmtudaginn 29. júní kl. 17 í sal Listasafns Ísafjarðar á 2. hæð Safnahússins. Sýningin er tileinkuð minningu Björns Baldurssonar fyrrum safnvarðar við Byggðasafn Vestfjarða. Harmonikusafn Ásgeirs á sér ekki hliðstæðu á Íslandi en á sýningunni er úrval á áttunda tug hljóðfæra sem Ásgeir taldi forvitnilegar fyrir margra hluta sakir svo sem sögu og fágæti.

70 harmonikur og nokkrum betur úr safni Ásgeirs S. Sigurðssonar er yfirskrift sumarsýningar Byggðasafns Vestfjarða og Safnahússins. Sýningin verður opnuð fimmtudaginn 29. júní kl. 17 í sal Listasafns Ísafjarðar á 2. hæð Safnahússins. Sýningin er tileinkuð minningu Björns Baldurssonar fyrrum safnvarðar við Byggðasafn Vestfjarða. 

Margir gullmolar leynast í safni Ásgeirs, t.d. elsta harmonikan í safninu, sem er frá árinu 1820, hún er í upprunalegum viðarkassa og í mjög góðu ásigkomulagi svo er önnur sem var smíðuð í 12 eintökum og af henni er aðeins vitað um 7. Flestar harmonikurnar í safninu eru í spilhæfu  ástandi. Ásgeir hefur kappkostað að eignast harmonikur þekktra íslenskra harmonikuleikara og jafnframt að geta sagt sögu hvers hljóðfæris, ef því er komið við, „oft er sagan ekki síðri en hljóðfærið“ eins og hann segir sjálfur. Ásgeir er einstakur hagleiksmaður og margar harmonikur hefur hann þurft að gera við frá grunni, fengið í frumeindum sínum, sett saman og smíðað það sem upp á vantaði.

Árið 2008 ákváðu þau hjón, Ásgeir og kona hans , Messíana Marsellíusdóttir, að gefa Byggðasafni Vestfjarða harmonikusafnið í heild sinni sem taldi um 140 harmonikur. Þessi höfðinglega gjöf er eitt af djásnum safnsins sem vonandi verður, í fyllingu tímans, hægt að búa viðeigandi stað þar sem hægt er að sýna í heild sinni. 

 

Velja mynd