Gamalt bréf fannst á milli þilja í Norska bakaríinu
Í gömlum húsum getur ýmislegt leynst á milli þilja og reyndist það raunin í Silfurgötu 5, Norska bakaríinu öðru nafni, þar sem unnið hefur verið að undanförnu að endurbótum. Er ætlun núverandi eiganda, Gistingar ehf., að innrétta húsið sem gistiheimili en að utanverðu verður það gert upp samkvæmt tillögum Húsafriðunarnefndar og skal vera sem næst upprunalegu útliti. Ýmislegt smádót hefur fundist þar inni í veggjum auk bréfs frá tveimur mönnum sem unnu að því að innrétta íbúð á efri hæð hússins á vormánuðum 1927.
Bréfið var geymt í glerflösku og hefur varðveist vel. Munirnir sem fundust voru m.a. lykill, gafall, tindátar, armbönd og trétappi. Erfitt er að segja til um hvort þessir munir hafi átt að hafa sérstaka merkingu en þekkt er sú hefð að tilteknir munir áttu að tryggja tiltekið lán eða gæfu íbúanna. Það að setja gafla eða skeiðar inn í veggi átti að tryggja að allaf yrði nóg að borða í húsinu, myntir áttu að tryggja auð og barnaföt eða leikföng áttu að tryggja barnalán.
Húsið að Silfurgötu 5 var reist árið 1884 af þremur Norðmönnum, þeim Jacob Bye, V. Roed og H.C. Kruge. Stofnuðu þeir bakarí í húsinu er nefnt var Norska bakaríið. Bye hafði lært bakaraiðn og hvíldi reksturinn mest á hans herðum eða þar til hann flutti til Vesturheims um 1889. Þá tók annar Norðmaður við rekstrinum, J.E. Sollie, og rak hann bakaríið til 1895 er Ásgeirsverslun keypti það. Var þá þýskur bakari, Bentzein, ráðinn til að sjá um bakaríið en síðar tók Karl Eyjólfsson bakari við starfi hans. Árið 1918 urðu eigendaskipti á bakaríinu þegar Hinar sameinuðu íslensku verslanir keyptu það ásamt öðrum eigum Ásgeirsverslunar. Nokkru síðar, árið 1921, lét Karl Eyjólfsson af starfi sem yfirbakari, flutti til Bolungarvíkur og hóf þar rekstur eigin bakarís. Gerðist Helgi Guðmundsson þá forstöðumaður og aðalbakari Norska bakarísins en hann hafði verið þar aðstoðarmaður um nokkurra ára skeið. Árið 1926 urðu Hinar sameinuðu íslensku verzlanir gjaldþrota og var Norska bakaríið þá selt þeim Helga Guðmundssyni og Árna J. Árnasyni. Áttu þeir eignina saman þar til Árni flutti til Reykjavíkur 1931 en Helgi keypti þá hans hlut. Rak hann bakaríið til ársins 1954 en seldi þá og flutti til Reykjavíkur.
Bréfið í glerflöskunni er svohljóðandi:
Íbúð þessi er gerð af okkur bræðrum, Bergsveini Guðmundssyni trjesmið og Kristjáni Guðmundssyni verksmiðjustj. á tímabilinu febr. – apríl árið 1927. Eigendur þessa húss eru nú: Helgi Guðmundsson bakari bróðir okkar og Árni J. Árnason. Keyptu þeir húsið af h/f Hinar sameinuðu ísl. verslanir sumarið 1926. Þar áður átti eignina Á. Ásgeirsson verslun um langt skeið. Fjekk hún hana af norskum manni, Soli, er ljet byggja húsið og stofnaði bakaríið.
Efri hæðin af þessari álmu hússins er þó byggð síðar, nokkru fyrir aldamót af Jóakim Jóakimssyni trjesm. Hefur það rúm verið notað fyrir geymslu þar til nú. Þessi íbúð er ætluð móður okkar, Kristínu Friðriksdóttur, og okkur.
Það er allra ætlan, að aldrei áður hafi atvinnuleysi og fjárskortur þrengt svo kosti íbúa þessa bæjar sem nú. Við óskum og vonum að þegar þetta blað kemur næst fyrir mannaaugu verið ástandið betra og horfurnar glæsilegri. Við sendum yður kærar kveðjur, þjer óþektu smiðir sem að rífið þetta hús, og gagnið þannig lögmáli þróunarinnar: Að bylta og byggja betur á ný.
Vinsamlegast
Ísafirði 3. apríl 1927
Bergsv. Guðmundss. Kr. Guðmundsson.
Í umfjöllun Skjalasafnsins á Ísafirði um fundinn segir að Kristján og Bergsveinn voru synir hjónanna Guðmundar Magnúsar Sveinssonar og Kristínar Friðriksdóttur. Þau gengu í hjónaband árið 1890, þá bæði húsmenn á Fossi í Skutulsfirði. Áttu þau næstu árin heima í Skutulsfirði og Hnífsdal en árið 1894 flutti fjölskyldan á Tannanes í Önundarfirði. Eignuðust þau Guðmundur og Kristín sjö börn sem öll komust til fullorðinsára nema eitt, sem dó stuttu eftir fæðingu. Guðmundur Magnús lést vorið 1910 og flosnaði þá ekkjan upp af jörðinni og barnaskarinn dreifðist. Eitt barnanna varð eftir í Tannanesi, þrjú fóru til Ísafjarðar en tvö yngstu börnin fylgdu móður sinni, drengirnir Kristján og Bergsveinn. Kristín fór fyrst til Dýrafjarðar en flutti ári síðar til Ísafjarðar. Þar náði hún saman öllum börnunum og bjó með þeim í fjölbýlishúsinu Bjarnarborg. Börn Kristínar og Guðmundar sem til aldurs komust voru: Guðrún, giftist Hermundi Jóhannessyni húsasmið á Akureyri; Guðmundur, dó ungur og ókvæntur; Elín, giftist Halldóri Snæhólm bónda á Sneis; Helgi bakarameistari á Ísafirði; Kristján framkvæmdastjóri í Reykjavík og Bergsveinn húsasmíðameistari.
Bergsveinn var fæddur á Tannanesi 3. maí 1904. Sem fyrr segir flutti hann með móður sinni til Ísafjarðar en þegar hann var sextán ára fór hann með Guðrúnu systur sinni til Akureyrar þar sem hann nam smíðar hjá Hermundi, manni Guðrúnar. Varð hann meistari í þeirri iðngrein og var við smíðar á Akureyri til ársins 1927. Þá fór hann suður til Reykjavíkur þar sem hann vann við smíðar næstu tvö árin. Árið 1929 hélt hann ásamt bræðrum sínum, þeim Kristjáni og Helga, til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám í Teknologisk Institute í húsateikningum. Þegar þeir bræður sneru heim aftur stofnuðu þeir fyrirtæki um húsbyggingar. Helgi var áfram búsettur á Ísafirði en þeir Bergsveinn og Kristján byggðu mörg hús í Reykjavík næstu árin, t.d. nokkur hús við Ránargötu, Garðastræti og Vesturgötu.
Bergsveinn var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Margrét Thorlacius og eignuðust þau saman fjögur börn: Kristíni Þuríði, Guðmund Jón, Friðrik og Grétu Berg. Þau Bergsveinn og Margrét slitu samvistum. Seinni kona hans var Ingibjörg Jóhannsdóttir, Bárðarsonar í Bolungarvík. Bergsveinn Guðmundsson lést 26. apríl 1988.
Kristján var fæddur að Tannanesi 26. júní árið 1900. Hann lauk prófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1921 og hélt þá vestur á Ísafjörð þar sem hann stofnaði verslun sem hann rak um tveggja ára skeið. Árið 1923 hóf hann, í samstarfi við annan mann,starfrækslu fiskimjölsverksmiðju sem var sú fyrsta hér á landi fyrir hertan fiskúrgang. Ráku þeir hana til ársins 1929 en seldu hana þá og ári seinna flutti Kristján til Reykjavíkur þar sem hann gerðist meðeigandi og framkvæmdastjóri Pípuverksmiðjunnar hf. Hann hafði áður kynnt sér framleiðslu steinsteypuvara á Norðurlöndum og í Þýskalandi og kom með ýmsar nýjungar í verksmiðjuna. Hann var t.d. einna fyrstur manna til að nota vikur sem byggingarefni og byggði sér sjálfur íbúðarhús úr vikurholsteini. Árið 1948 gerðist hann brautryðjandi nýrrar iðngreinar hérlendis, sem þá gaf góðar vonir á heimsmarkaðinum, en það var framleiðsla á sútuðu fiskroði. Sparaði Kristján hvorki fé né fyrirhöfn til þess að gera þessa nýju framleiðslu sem best úr garði en þá brugðust markaðir. Breytti hann þá verksmiðjunni og hóf framleiðslu á kemiskum efnum. Sagt var um Kristján að hann væri „bjartsýnn athafnamaður, sem vildi hefja framleiðslu- og atvinnumál þjóðarinnar til aukinnar hagsældar, og hann reið ótrauður á vaðið með ýmsar nýjungar í þeim efnum.“ Kristján lést 26. mars 1952. Hann var kvæntur Sigríði Kristinsdóttur og áttu þau einn son, Kristján Ómar.
Helgi var fæddur á Tannanesi 19. janúar 1897. Eftir að faðir hans féll frá fór hann til Ísafjarðar og var þá ráðinn til ýmissa starfa og snúninga hjá Ásgeirsverslun. Norska bakaríið var þá í eigu Ásgeirsverslunar og þangað var Helgi sendur til aðstoðar bakaranum, Karli Eyjólfssyni. Var það upphaf þess að hann tók að leggja stund á bakaraiðn. Tók hann síðar við af Karli og gerðist forstöðumaður bakarísins og aðalbakari. Árið 1926 keypi hann, ásamt Árna J. Árnasyni, Norska bakaríið af Hinum sameinuðu íslensku verslunum. Veturinn 1929 dvaldi Helgi erlendis, aðallega í Danmörku þar sem hann stundaði nám í Teknologisk Institut í Kaupmannahöfn auk þess að kynna sér brauðgerð og brauðgerðarhús. Árið 1931 flutti Árni til Reykjavíkur og keypti Helgi þá hans hluta og rak bakaríið til ársins 1954 en seldi þá og flutti til Reykjavíkur. Eftir að Silfurgata 5 komst í eigu þeirra Helga og Árna árið 1926, var innréttuð íbúð á efri hæð hússins og þar bjó Helgi alla tíð síðan ásamt Kristínu móður sinni en hún lést 19. júní 1952.
Helgi vann mikið að félagstörfum í gegnum tíðina og þótti ætíð gott á hann að heita til liðsinni ef á þurfti að halda. Var hann einn af stofnendum og í stjórn U.M.F. Árvakurs og átti einnig lengi sæti í stjórn Skíðafélags Ísafjarðar. Eins var hann einn af stofnendum knattspyrnufélagsins Harðar. Hann starfaði einnig mikið í góðtemplarareglunni og var ein af stoðum stúkunnar Nönnu nr. 52. Kona Helga var Björg Pálsdóttir og áttu þau tvær dætur, Kristjönu og Helgu Björg. Helgi lést 22. júní 1957.
Árni J. Árnason var fæddur 17. maí 1894. Hann var borinn og barnfæddur Ísfirðingur og starfaði þar mestan hluta ævi sinnar. Fyrst hjá Leohn. Tangs-verslun, síðan Hinum sameinuðu íslensku verslunum og um mörg ár hjá útibúi Íslandsbanka, síðar Útvegsbankinn. Árið 1935 fluttist Árni með fjölskyldu sína til Reykjavíkur og tók þá við starfi í Útvegsbankanum í Reykjavík. Árni lést með sviplegum hætti þann 13. júlí 1939 en hann drukknaði þegar hann hugðist ríða yfir Gunnlaugshöfðakvísl í Hvítá í Borgarfirði. Kona Árna var Guðríður Tómasdóttir og áttu þau þrjú börn, Theódór, Sigurð og Svanhildi.
Jóakim Jóakimsson var fæddur í Árbót í Suður-Þingeyjarsýslu 17. september 1852 og ólst þar upp hjá foreldrum sínum. Hann lærði trésmíðar hjá Tryggva Gunnarssyni, síðar bankastjóra, sem þá bjó á Hallgilsstöðum í Fnjóskadal. Jóakim kom til Ísafjarðar árið 1874 og var einn helsti húsasmiður bæjarins um langt skeið. Hann átti sæti í bæjarstjórn og var í tugi ára í byggingarnefnd kaupstaðarins og sóknarnefnd. Hann gekkst fyrir stofnun Iðnaðarmannafélags Ísfirðinga og var formaður þess fyrstu árin. Jóakim var fjórgiftur en átti aðeins einn son er upp komst, Tryggva, sem hann átti með fyrstu konu sinni, Maríu Sigríði Kristjánsdóttur. Jóakim lést 5. febrúar 1942.