Saga Harðar afhent skjalasafninu
Skjalasafninu á Ísafirði var fyrir skömmu afhent saga knattspyrnufélagsins Harðar á síðustu öld. Hörður var stofnað árið 1919, en í safninu er að finna allar fundarbækur félagsins, fjöldi mynda og myndaalbúma og allar þær skýrslur og skjöl sem ritaðar hafa verið í sögu félagsins. „Nú eru þessi skjöl tilbúin til þess að skrást inn í kerfi skjalasafnsins og hver sem er getur því haft greiðan aðgang að þessari sögu hér eftir,“ segir Hermann Níelsson formaður Harðar.
Jens Kristmannsson, fyrrum formaður félagsins, hefur unnið að skjalasöfnuninni síðastliðin ár. Hann kynnti gögnin við athöfnina, en Jónu Símoníu Bjarnadóttur forstöðumanni safnsins var afhent gögnin. „Þar fékk skjalasafnið skjölin til ævarandi varðveislu,“ segir Hermann, en Guðfinna M. Hreiðarsdóttir skjalavörður veitti skjölunum einnig viðtöku.
Um 20 manns voru viðstaddir athöfnina, þar á meðal var stjórn Harðar og fulltrúar frá glímudeild og handboltadeild félagsins. Einnig mættu gamlir Harðverðar á viðburðinn sem og stuðnings- og styktaraðilar. Unga fólkið mætti einnig á þennan merkilega viðburð, en glímukapparnir Margrét Rúnarsdóttir og Elvar Stefánsson sýndu glímu, sem er ein af íþróttagreinum félagsins. „Það var við hæfi að sýna þjóðaríþróttina þegar skjölin voru afhent,“ segir Hermann.