Varðveitum vestfirska húsasögu

Fyrir skemmstu fékk Skjalasafnið skjalaafhendingu sem innihélt m.a. kaupsamninga, afsöl, iðgjöld o.fl. vegna Sundstrætis 25a á Ísafirði. Elsta skjalið er kaupsamningur frá 1858 auk fleiri kaupsamninga frá 19. öldinni sem gefa góðar upplýsingar um eigendasögu hússins, sem er með þeim elstu á Ísafirði.

Skjalasafninu berast á hverju ári margar fyrirspurnir um gömul hús á svæðinu og því er ómetanlegt að fá gögn sem geta verið mikilvægar heimildir í húsasögu vestfirskra byggða. Á það einnig við um gamlar ljósmyndir af húsum sem oft eru einu heimildirnar sem menn hafa í höndunum þegar gömul hús eru gerð upp. 

Við viljum hvetja fólk til að skila á safnið kaupsamningum, virðingum og öðrum gögnum er varða gömul hús svo varðveita megi sögu þeirra til framtíðar og auðvelda húseigendum og þeim sem gera upp gömul hús, aðgengi að upplýsingum.

Velja mynd